154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

búvörulög.

505. mál
[12:34]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Stutta svarið við spurningu hv. þingmanns er nei. Ég átta mig ekki á hvernig það mat ætti að vera en þetta er auðvitað hluti af verksviði Samkeppniseftirlitsins hvort eð er þegar kemur að samkeppni, m.a. í íslenskum landbúnaði. Ég held að þarna sé ekki um neina slíka tölu að ræða að það ráði úrslitum í rekstri eða fjármögnun Samkeppniseftirlitsins. Vandinn sem við stöndum hins vegar frammi fyrir, og ég veit að hv. þingmaður hefur ágætan skilning á því, er að þótt við getum verið talsmenn þess að hér sé sem mest og víðtækust samkeppni, hér sé eins lítil fákeppni og hægt er, þá er því miður ekki hægt að ákveða það með lögum. Það er ekki hægt að ákveða það með lögum. Þegar raunveruleikinn er sá að við horfum upp á að hér stefni í raunverulega fákeppni — og hún er til staðar í dag, það skal ég fyrstur viðurkenna, og ég held að staðan muni versna, ég óttast að hún muni versna á komandi árum — tel ég að það sé nauðsynlegt og skynsamlegt fyrir þingið að grípa til þeirra ráða að setja þessi lög, heimila hagræðinguna, heimila hana á ákveðnum forsendum og undir mjög ströngum skilyrðum, allt undir eftirliti Samkeppniseftirlitsins.