154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

breyting á ýmsum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga.

864. mál
[16:40]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum enn að ræða frumvarp félags- og vinnumarkaðsráðherra um endurskoðun örorkulífeyris og ég sé að hæstv. ráðherra er í salnum. Í sjálfu sér tengt þessu þá hef ég alltaf áhyggjur af fjárhagsstöðu öryrkja. Við vitum að það hefur verið mikil verðbólga og staðan er slæm hjá öryrkjum í dag. Ef hæstv. ráðherra vill og getur svarað þá væri mjög gott að vita hvort til stendur, af því að nú er nýbúið að gera kjarasamninga þar sem lægstu laun eiga að hækka um tæpar 24.000 kr., ef ég man rétt, að yfirfæra þessa hækkun til öryrkja á mánuði eða hvort notuð verður neysluvísitala og einhverjar aðrar brellur til að ná þessu niður, og hvort það verður gert í sumar. Það er svona eiginlega kallað eftir því í því árferði og ástandi sem er í dag og ætti að vera sjálfsagður hlutur.

Ég er hér með ályktun um málefni fatlaðs fólks og öryrkja frá Vinstri grænum sem samþykkt var 28. ágúst 2021. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Gera þarf lífeyriskerfið gagnsærra og halda áfram að minnka vægi skerðinga innan þess. Kerfið á að styðja við virkni og atvinnuþátttöku fólks og má ekki undir neinum kringumstæðum halda öryrkjum í fátæktargildru.“

Við ræddum hér áðan um einstaklinga sem eru í stórfurðulegri stöðu. Ég tók sérstaklega fyrir þann sem fær langminnst í þessu nýja endurskoðaða kerfi, nákvæmlega 803 kr. hækkun. Sá einstaklingur er í dag að fá útborgað eftir skatta 304.708 kr. Ég endurtek: 304.708 kr. Ég hitti einstakling um daginn sem var í þessu kerfi, að vísu einstæður, býr einn og er á leigumarkaði. Sá einstaklingur fær útborgað í dag 363.808 kr., en hann var að borga 260.000 kr. í leigu og fékk leigubætur. Þegar hann var að sýna mér þetta rétt fyrir áramótin var leigan að hækka í 320.000 kr. á mánuði. Það munar því að 43.000 kr. verða eftir fyrir öllu öðru, plús það sem hann fær í húsnæðisbætur. Ég spyr og myndi vilja óska þess að ráðherra svari því hvernig í ósköpunum þetta samræmist því og hvort hann telji ekki að þarna sé öryrkinn komin í fátæktargildru, hvort hann myndi sjálfur treysta sér til að lifa og reyna að lifa mannsæmandi lífi við þessar aðstæður. Það eru svona gildrur sem ég vil að við útrýmum.

Af því að hann spurði líka í sambandi við hv. þm. Ingu Sæland áðan um 400.000 kr. skatta- og skerðingarlaust þá erum við auðvitað ekki að fara fram á það að milljóna króna maðurinn fái 400.000 kr. skatta- og skerðingarlaust. Kerfið er þannig í dag að um leið og þú ert kominn í rúmar 700.000 kr. þá dettur þú út af örorkumarkaðnum. Ég hef ekki hitt einn einasta aðila sem vill vera í þessu örorkukerfi. Annað í þessu er að konur í þessu kerfi núna, tökum konu sem er með 70–90.000 kr. á mánuði í lífeyrislaun frá lífeyrissjóði — jú, það kemur 100.000 kr. frítekjumark, alveg frábært — við skulum segja að konan sé að fá þetta núna og hún sé kannski 65 ára. Síðan verður hún 67 ára og þá dettur hún niður í ellilífeyriskerfið og fer niður í 25.000 kr. frítekjumark. Ég spyr mig: Á að leiðrétta svona? Ég hef ekki heyrt það, frekar en að það eigi að leiðrétta fyrir öryrkjann sem er fæddur öryrki og lækkar um 35.000 kr. á mánuði við það eitt að verða ellilífeyrisþegi. Honum er refsað fyrir það. Þarna er komin ný refsiaðferð. Vonandi getum við tekið á þessum málum og fengið það skýrt hvernig meðferðin verður á þessu í velferðarnefndinni. Það verður auðvitað að fá svör við því hvernig fólk á að lifa af svona lágum launum eins og 304.000 kr., eða minna í mörgum tilvikum þegar búið er að borga leigu, og á ekkert eftir. Við þurfum svör.