154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

breyting á ýmsum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga.

864. mál
[16:45]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmönnum kærlega fyrir þessa umræðu í dag sem hefur verið hin prýðilegasta. Ég ætla rétt aðeins að fara yfir nokkur af þeim atriðum sem hér komu fram. Mig langaði að byrja á því að koma örlítið inn á það sem hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir nefndi og fá að taka undir með henni um mikilvægi þess að persónuupplýsingar og umgengni um þær sé með þeim hætti að ásættanlegt sé, líkt og kom bæði fram í umsögn Öryrkjabandalagsins, eins og hv. þingmaður nefndi, og Persónuverndar sjálfrar.

Mig langar að nefna að í frumvarpinu er verið að fjalla um samstarf aðila sem allir starfa samkvæmt lögum í dag og hafa allir heimildir til vinnslu persónuupplýsinga. Ég held að það sé mikilvægt að það komi skýrt fram og því er í sjálfu sér ekki breyting þar á heldur snýst þetta um heimildir þeirra til að vinna saman. Við viljum koma á meiri samvinnu milli þessara aðila til að ná meiri árangri í endurhæfingunni og það er síðan auðvitað á ábyrgð hvers kerfis að tryggja sanngjarna vinnslu persónuupplýsinga og ganga ekki lengra en þörf krefur, eins og ég held að standi í frumvarpinu ef ég man þetta rétt. Það er í raun bara rétt eins og gildir í framkvæmdinni núna og það á ekki að vera að gefa neina afslætti af ákvæðum laga um persónuvernd. Í þeim ákvæðum sem varða samvinnu kerfa er svo sérstaklega kveðið á um skyldu aðila til að upplýsa einstaklingana um fyrirhugaða vinnslu. Ég endurtek það sem ég sagði, í svörum við andsvörum hv. þingmanns hér áðan, að þetta er eitthvað sem ég tel mikilvægt að nefndin fari vel yfir.

Mig langar síðan að koma inn á það sem mér sýnist að valdi hv. þingmönnum kannski einna mestum áhyggjum. Ég vil reyna að draga úr þeim áhyggjum en lýsi því jafnframt yfir að ég held að mikilvægt sé að taka þetta til frekari skoðunar í nefndinni, og er hér með virknistyrkinn í huga. Ég skil auðvitað þær áhyggjur sem hv. þingmenn hafa dregið hér fram af því hvað gerist ef viðkomandi hefur verið með aðstoð Vinnumálastofnunar í atvinnuleit í 24 mánuði, með virknistyrk, og fær ekki vinnu og er ekki búinn að fá nýtt samþætt sérfræðimat. Ég skil þessar áhyggjur og líkt og hv. þm. Inga Sæland benti á, ef ég man rétt, að hvort sem það væri hálfur mánuður, mánuður, þrír mánuðir eða hvað það er þá held ég að við séum öll sammála um að það er eitthvað sem við viljum ekki að gerist. Þá spyr maður sig: Hvernig getum við reynt að tryggja þetta enn frekar en gert er í frumvarpinu, þó svo að við gerum ráð fyrir að framkvæmdin á þessu sé með þeim hætti að þetta eigi ekki að gerast, sem er hugsunin með þessu? Vinnumálastofnun ber m.a. að láta Tryggingastofnun vita með nægilega miklum fyrirvara ef atvinnuleitin og aðstoð Vinnumálastofnunar við viðkomandi einstakling í atvinnuleit er ekki að skila árangri. Eitthvað er þá ekki að virka ef viðkomandi er ekki kominn með vinnu eftir 18 eða 20 mánuði eða hvað það er, vegna þess að það er talsvert langur tími þegar þú ert með einstaklingsmiðaða aðstoð við að fá vinnu. Það gæti verið að enga vinnu væri að fá við hæfi, það gæti verið að það skorti einhverja hæfni hjá viðkomandi þegar á reynir til að stunda vinnuna og þá myndi nýtt mat taka tillit til þessara aðstæðna, þessara umhverfisþátta, þannig að það væri þá fullreynt um það, alla vega miðað við atvinnuástandið eins og það væri hverju sinni hvað þetta varðar. Ég held við ættum þá að horfa til þess að reyna að teikna þennan feril hreinlega nákvæmar upp til þess að við getum mætt þessu áhyggjuefni betur en hv. þingmenn vilja meina að hér hafi verið gert. Ég er allur af vilja gerður til að ráðast í þá vinnu með hv. velferðarnefnd. Eitt gæti t.d. verið að útfæra þetta ferli betur í reglugerð sem væri hægt að vinna á meðan málið er í meðförum nefndarinnar þannig að hv. þingmenn gætu séð drög að slíku áður en frumvarpið yrði samþykkt á þingi, vonandi í vor, eða eitthvað slíkt. Ég lýsi vilja til þess að vinna að því.

Ég ætlaði síðan að fagna því sem hv. þm. Inga Sæland sagði hér áðan þegar ég spurði hana um skatta- og skerðingarlausar 400.000 kr., að það eigi ekki við um milljónamæringa eða hvernig sem hv. þingmaður orðaði það. Það er gott að fram sé komið að þá sé í raun ekki um skatta- og skerðingarlausar 400.000 kr. að ræða almennt séð, það er þá frekar skatta- og skerðingarminna kerfi sem Flokkur fólksins er að tala um. Það er reyndar í fyrsta skipti sem ég heyri það en mjög ánægjulegt að það sé komið fram og sé skýrara en það var, alla vega í mínum huga, fyrir þennan ágæta þingfund.

Að lokum langar mig að segja að það frumvarp sem hér liggur fyrir er að mínu mati eitthvað sem mun ekki bara færa örorkulífeyrisþegum og endurhæfingarlífeyrisþegum miklar réttarbætur heldur er líka um umfangsmiklar kjarabætur að ræða. Við erum að setja fjármagnið sem við fáum inn í þessa kerfisbreytingu, 18 milljarða á ári, í það að hækka grunngreiðslurnar til örorkulífeyrisþega þannig að þau sem hafa ekkert nema frá ríkinu hækki sem mest og þau sem hafa litlar aðrar tekjur en frá ríkinu hækki líka sem mest. Það gerum við þá með almenna frítekjumarkinu. Þetta eru mikilvægar áherslur til þess að fjármagnið nýtist best þeim sem minnst hafa í dag. Með því að einfalda kerfið með þeim hætti sem við erum að leggja til leggjum við líka grunninn að því að í framtíðinni verði einfaldara að ráðast í kjarabætur fyrir þennan hóp vegna þess að við verðum ekki með endalausar flækjur af allt of miklum fjölda bótaflokka, með allt of flóknar og mismunandi reglur þegar kemur að tekjuskerðingum o.s.frv. Ég held því að þetta sé stærsta umbótamál sem komið hefur fyrir þingið sem varðar örorkulífeyriskerfið, bæði hvað varðar endurhæfinguna en líka og ekki síður hvað varðar greiðslukerfi almannatrygginga. Ég hlakka til þeirrar vinnu sem fram undan er í nefndinni og að fylgjast með henni og við í ráðuneytinu erum boðin og búin til að aðstoða eftir því sem leitað verður eftir.