154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

breyting á ýmsum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga.

864. mál
[16:54]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Mig langaði bara örstutt að árétta ástæður þess að ég hef áhyggjur af persónuvernd, þar sem í máli hæstv. ráðherra kom það kannski svolítið fram sem ég hef áhyggjur af, að stundum er svolítið lítið gert úr nauðsyn þess að heimildir til miðlunar persónuupplýsinga séu skýrar. Hæstv. ráðherra talaði um að þær stofnanir og þau embætti sem um ræðir í lögunum hafi nú þegar tilteknar heimildir til vinnslu persónuupplýsinga. Þetta er rétt. Hins vegar er heimild stjórnvalds til vinnslu persónuupplýsinga aldrei almenn og opin og á ekki að vera það. Ef hún er það þá brýtur hún gegn stjórnarskrá.

Ég ætla að nefna praktísk dæmi. Til dæmis hafa skattyfirvöld gríðarlega miklar heimildir til að afla upplýsinga héðan og þaðan til að tryggja það að einstaklingar sinni sínum skattgreiðsluskyldum og annað. Það sem skiptir máli í því samhengi er að ef verið er að búa til nýjan pott af persónuupplýsingum hjá einhverju stjórnvaldi þarf einstaklingurinn sem leggur inn þær persónuupplýsingar að vera meðvitaður og upplýstur um það hver hefur heimild til að fá þessar upplýsingar og í hvaða tilgangi. Þetta skiptir máli til að fólk geti sjálft tekið ákvörðun um hvernig það miðlar upplýsingum sínum. Það treystir því kannski að það sé að miðla ákveðnum upplýsingum í ákveðnum tilgangi en svo eru þær nýttar í öðrum tilgangi. Þetta er hættan. Það getur verið að eðlilegt sé að upplýsingarnar séu líka nýttar í öðrum tilgangi, það sem skiptir máli er að þetta sé allt skýrt, ramminn sé skýr, gagnsæið algjört og að stjórnvöld fari ekki út fyrir heimildir sínar. Til að vita hvort þau eru að fara út fyrir heimildir sínar þurfa heimildirnar sannarlega að vera skýrt afmarkaðar. (Forseti hringir.) Mig langaði bara til að árétta þetta, ekki beinlínis til andsvars við hæstv. ráðherra heldur til fróðleiks.