154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

breyting á ýmsum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga.

864. mál
[16:56]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og tek í rauninni undir það að hér þarf að fara að öllu með gát. Það er bara þannig þegar um mál sem þessi er að ræða. Hér nefnir hv. þingmaður að mikilvægt sé að allt sé skýrt þegar kemur að þessum þáttum. Ég tek undir að það er mikilvægt. Mig langar einfaldlega að segja hér að lokum að mat á áhrifum á persónuvernd hvað frumvarpið sjálft varðar leiddi í ljós að í þeim tilgangi að ná markmiðum frumvarpsins sé talið mikilvægt að heimila þá vinnslu persónuupplýsinga sem gert er ráð fyrir. Og áhætta af vinnslu persónuupplýsinga er ekki talin of mikil miðað við þann ávinning sem fengist við bætt kerfi. Síðan, eins og ég nefndi fyrr í dag, verður sérstakt mat á áhrifum á persónuvernd, þ.e. annað mat til að tryggja að þessar tæknilausnir virki sem slíkar eins og þær eiga að virka og séu öruggar. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta upp því að ég tel að þetta sé mikilvægt mál.