154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

breyting á ýmsum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga.

864. mál
[17:00]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort gerð hafi verið kostnaðargreining á því að breyta aldurstengdu uppbótinni. Ég tel það að mörgu leyti skilvirkara að aldurstengda uppbótin fari ekki upp allan stigann. Þegar hún er komin yfir 40 til 45 ára þá er þetta enginn peningur, hún er það lítil að hún breytir engu. En það skiptir rosalega miklu máli fyrir þann hóp sem er eingöngu á strípuðum bótum, fyrir þá sem eru fatlaðir frá fæðingu, að halda þessu. Ég spyr hvort gerð hafi verið kostnaðargreining á þessu. Nú sparar kerfið aðeins þarna og það er verið að hækka bótaflokkana. En hefði verið hægt að nota þennan sparnað til að tryggja a.m.k. að þessi hópur hefði haldið 30.000 kr. eða um 20.000 kr. eftir skatta og væri þá að fá smáhækkun eins og allir aðrir?

Í þessu kerfi er reiknað með að það verði 100.000 kr. frítekjumark sem má þá til dæmis nýta til lífeyrisgreiðslna. Þar munu konur falla mikið undir vegna þess að þær eru með lágan lífeyri. En það sem ég óttast þarna er að um leið og þær fara á eftirlaun þá missa þær þetta úr 100.000 kr. niður í 25.000 kr., missa 75.000 kr. Þetta gerist líka hjá þessum aldurstengdu. Þarna er verið að refsa hópum fyrir að eldast sem ætti auðvitað að vera alveg þveröfugt, það ætti að bæta þetta. Ég spyr hvort það standi líka til að aldraðir fái þessa hækkun, að það verði hækkað úr 25.000 kr. í 100.000 kr. hjá öldruðu fólki. (Forseti hringir.) Þannig væri hægt að sporna við því að það yrði einhver lækkun þarna.