154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

breyting á ýmsum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga.

864. mál
[17:02]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Hv. þingmaður spyr út í kostnaðargreiningu á aldurstengdu uppbótinni út frá því hvort hægt hefði verið að halda henni hærri fyrir fólkið sem kemur beint inn á örorkukerfi og er með meðfæddar skerðingar. Ég vil taka skýrt fram, af því að hv. þingmaður sagði að þarna væri verið að spara í kerfinu, að það er ekki verið að spara í kerfinu, það er verið að færa til í kerfinu. Viðkomandi einstaklingur er þannig ekki að lækka heldur fer það inn í grunninn hjá honum.

Ég deili þeirri skoðun hv. þingmanns að þetta er hópur sem við eigum að horfa sérstaklega til. Til að kerfið nái fram einföldun má kannski segja að það sé mikilvægt að við horfum til þess að gera þetta nokkurn veginn með þeim hætti sem við erum að gera. En það sem ég vil segja er að með því að einfalda þetta með þessum hætti þá eigum við auðveldara með það í framtíðinni að ráðast í hækkanir sem gætu einmitt snúið að þessum hópi, þegar við erum búin að þrengja bil þeirra sem fá að njóta aldursviðbótarinnar, þ.e. hún hættir við 44 ára aldur. Ég held að það sé alveg sanngjarnt vegna þess að flest sem koma inn í kerfið eftir 44 ára aldur eru með lífeyrissjóð.

Ég segir því: Það eru framtíðartækifæri fólgin í því að vinna að því að hækka þetta. Mér finnst við verða að horfa svolítið á þetta í skrefum. Við erum að mínu mati að búa til gott kerfi hérna. Og sérstaklega hvað þetta varðar tel ég að við eigum í framtíðinni, með ekkert allt of miklum tilkostnaði, að geta hækkað þetta smátt og smátt þannig að það nýtist akkúrat mest þeim sem hv. þingmaður nefndi hér, þ.e. fólki sem er með meðfæddar skerðingar.