154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

breyting á ýmsum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga.

864. mál
[17:04]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég ætla þó að ítreka hina spurninguna, hvort hann telji ekki að það þurfi að breyta almannatryggingakerfinu hvað varðar eldri borgara, að frítekjumarkið fari úr 25.000 kr. í 100.000 kr., ég tel það gífurlega mikilvægt.

En síðan vil ég líka benda á það sem við höfum rætt hér áður. Mig langar að vita hvað honum finnst um þetta. Þessi hópur sem ég hef bent á, sem er að fá 304.000 kr. útborgaðar, og er að hækka um 800 kr. í þessu, konur. Kona sem býr ein fær þarna 60.000 kr. meira. Þetta er allt of lítið, sérstaklega fyrir einstaklinginn sem býr einn, en það er líka ótrúlega skrýtið að einstaklingar sem er að fá 304.000 kr. útborgaðar — ég held að við hljótum að vera sammála um að þetta er auðvitað alveg fáránlega lág tala — sé bara að fá 800 kr. hækkun í þessu. Við hljótum a.m.k. að geta gert eitthvað.

Ég spyr aftur: Stendur til að hækka öryrkja eitthvað á þessu ári, í sumar, samkvæmt kjarasamningum, eða á ekkert að ske fyrr en þetta verður samþykkt 1. september 2025? Á þetta bara að vera óbreytt, ein hækkun á ári og þá samkvæmt neysluvísitölu ekki samkvæmt launaskriði? Hvernig sér ráðherra fyrir sér að byggja undir jákvæðni við það frumvarp, að reyna að byrja á að hækka framfærsluna til öryrkja?