154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

breyting á ýmsum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga.

864. mál
[17:06]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Við tókum þá ákvörðun þegar við vorum að vinna þetta frumvarp — þar sem ýmislegt var skoðað og greint, og þar með talið eitt af því sem hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson hefur verið með þingmál um, sem snýr að aldursviðbót örorkulífeyrisþega þegar þeir verða ellilífeyrisþegar, það er eitt af því sem við skoðuðum. En þegar við vorum búin að fara yfir það, sem og ýmislegt annað sem snýr að þeim skilum þegar fólk hættir á örorku og fer yfir á ellilífeyri, tókum við þá ákvörðun að einbeita okkur að því að við værum að breyta kerfi örorkulífeyris í þessu skrefi en ekki öðrum kerfum. Það er þó ein undantekning á því, og það er mjög jákvæð undantekning, þ.e. að frítekjumörkin, sem ég nefndi í framsöguræðu minni áðan, verða framvegis hækkuð árlega um leið og bætur. Það á þá við um ellilífeyrisþega líkt og örorkulífeyrisþega. Það er í raun eina breytingin sem snýr að þessum mörkum þessara kerfa. Til að svara þeim spurningum sem sneru að ellilífeyriskerfinu höfum við ekki horft til þess í þessu máli að gera aðrar breytingar, enda voru gerðar umfangsmiklar breytingar á ellilífeyriskerfinu fyrir nokkrum árum.

Varðandi 800 kr. hækkunina þá er þetta mjög fámennur hópur, því að flest þetta fólk er með einhverjar tekjur í dag. Þetta er fólk sem er að koma inn á örorku, ef ég man þetta rétt, við 45 ára aldur eða þar um bil. Þetta er án efa til en það eru þá óskaplega fá dæmi. Í ljósi þess hversu mikið við fáum út úr þessari kerfisbreytingu — það eru alltaf einhverjir sem fá aðeins meira og einhverjir sem fá minna.