154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

sóttvarnalög.

867. mál
[17:23]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir kynninguna. Mig langar til þess að beina einkum tveimur spurningum til hæstv. ráðherra á þessu stigi. Nú er verið að flytja málið aftur nokkurn veginn óbreytt frá því sem áður var. Annars vegar kom fram sú gagnrýni á málið þegar það var rætt hér áður að ekki hefði sú þekking og reynsla sem við hlutum af heimsfaraldri Covid-19 verið nýtt til fulls við vinnslu málsins, m.a. hafi afrakstur eins konar uppgjörsfundar í desember 2022 ekki verið nýttur við vinnslu frumvarpsins. Hins vegar var alveg ljóst að það var nokkur ágreiningur innan ríkisstjórnarflokkanna um þetta mál. Ég verð því að játa að það kemur dálítið á óvart að það skuli vera lagt fram núna óbreytt og því langar mig að beina tveimur spurningum til hæstv. ráðherra. Annars vegar: Hefur verið leyst úr þeim ágreiningi og hefur hæstv. ráðherra trú á því að þetta mál verði afgreitt frá þinginu í þessari mynd, eða er verið að leggja það fram að einhverju leyti til málamynda? Hin spurningin sem mig langar til að beina til hæstv. ráðherra er: Hvers vegna hefur tíminn — nú er nokkur tími liðinn frá því að málið var rætt hér áður — ekki verið betur nýttur til þess að draga lærdóm af reynslu okkar af Covid-heimsfaraldrinum til að bregðast við þeim ábendingum og þeirri gagnrýni sem hefur komið fram á frumvarpið?