154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

sóttvarnalög.

867. mál
[17:24]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur fyrir mjög góðar spurningar. Þetta er einmitt það sem ég var að reyna að koma að hér í lok ræðu minnar. Í svo stóru máli sem fjallar um svo rík réttindi og þrungnar aðstæður, þegar við rifjum upp þær hörðustu sóttvarnaráðstafanir sem við töldum að þyrfti að fara í á sínum tíma, þá er bara ágætt að málið fái að þroskast. Það eru ólík sjónarmið á milli flokka og innan flokka. Ég hef rekið mig á það í þessi þrjú skipti og í þeim umsögnum sem hafa komið. Það eru deildar meiningar á milli þeirra flokka sem eru í ríkisstjórn. Það hefur komið fram í umræðu um þessi mál í þessi tvö skipti sem málið hefur komið fyrir þingið og við höfum reynt að taka tillit til þess. Ég get dregið hér fram þær breytingar sem hafa orðið á málinu sem hefur kannski orðið til þess að ég kem aðeins seinna með það inn heldur en hefði verið hægt, en það er bara eins og gengur í þessu. Í 12. gr. horfðum við til þess að fella brott að einstaklingum sé skylt að hlýða fyrirmælum um meðferð og rannsóknir en áfram standi að viðkomandi sé skylt að hlýða fyrirmælum. Í 16. gr. stendur að taka eigi tillit til efnahagslegra og félagslegra hagsmuna — það er að hluta til þessi gagnrýni sem hv. þingmaður kemur inn á og spyr um. Svo í 36. gr., þegar sóttvarnalæknir telur að skipuleggja þurfi skoðun (Forseti hringir.) farangurs eða gáma eða þess háttar, þá á að liggja fyrir rökstuddur grunur. Ég reyni að svara ítarlegar í seinna svari.

(Forseti (ÁsF): Ég minni hæstv. ráðherra á ræðutímann.)