154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

sóttvarnalög.

867. mál
[17:27]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég skil hann sem svo að það standi kannski ekki miklar vonir til þess að málið klárist að sinni en tek undir með hæstv. ráðherra að það er sannarlega mikilvægt að ræða þessi mál í þinginu. Ég hlakka persónulega til umræðunnar, bæði í þingsal og í nefndinni.

Nú eru ákveðnar athugasemdir sem voru kannski einna mest áberandi í þeim umsögnum sem bárust um málið á fyrri stigum sem hefur ekki verið brugðist við, svo sem um það hversu víðtækt gildissviðið er varðandi t.d. skilgreiningu á sjúkdómum og öðru sem það nær yfir o.fl. Það eru ákveðnir, hvað eigum við að segja, einfaldir hlutir sem maður hefði kannski haldið að hefði verið hægðarleikur fyrir ráðuneytið að bregðast við með meiri hætti áður en málið var lagt fram að nýju. Ég ætla því kannski bara að fara í kjarna málsins og spyrja hæstv. ráðherra hvort málið hafi verið í mjög ítarlegri vinnslu í ráðuneytinu frá því að það var rætt hér síðast þar til nú.