154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

sóttvarnalög.

867. mál
[17:28]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ítreka þakkir til hv. þingmanns. Fyrst vil ég segja að ég bind auðvitað vonir við það að við afgreiðum þetta mál. Ég tel að þetta mál sé til mikilla bóta. Þó að lögin hafi gagnast okkur ágætlega í gegnum faraldurinn þá lærðum við ýmislegt af faraldrinum eins og hv. þingmaður kemur raunverulega inn á í sínu andsvari. Ég vil meina að hér séu nýmæli til bóta. Markmiðsákvæðið kemur nýtt í frumvarpið og það er mjög mikilvægt. Það er mjög stýrandi og mjög mikilvægt er að það hafi komið hér inn — ég meina, hvert er markmiðið með þessu? Hér er gildisákvæðið líka skýrt og skýrara, og stigskiptingin finnst mér til bóta og meira í ætt við það sem við sjáum þróast til að mynda á Norðurlöndunum. Það er ágætiskafli í greinargerðinni um samanburðinn þar.

Ég átta mig á því hvað hv. þingmaður er að fara. Jú, við höfum tekið tillit til umsagna og þeirra sjónarmiða sem hafa þó náðst fram í gegnum umræður á Alþingi í þessi tvö skipti. Ég er líka á því að aðkoma og eftirlitshlutverk Alþingis sé mjög til bóta. Það er mikil styrking þegar við horfum til 28. gr. og þess kafla frumvarpsins, sérstaklega 30. gr. um sóttvarnaráðstafanir. Þá er miklu ríkari skylda og krafa um upplýsingaskyldu ráðherra til þingsins sem ég tel að sé mjög til bóta. Því er ýmislegt sem við lærðum af faraldrinum sem kemur fram í frumvarpinu þannig að ég verð að segja að ég bind vonir við það að eftir umfjöllun í hv. velferðarnefnd, góðar umsagnir um málið og góða umræðu í nefndinni og á Alþingi munum við klára þetta mál.