154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

sóttvarnalög.

867. mál
[17:31]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta framsögu hér og einnig fyrir það hvernig hann hefur reynt að koma til móts við þá gagnrýni sem hefur m.a. komið frá þingflokki Sjálfstæðisflokksins á frumvarpið, en þess má að einhverju leyti sjá stað í frumvarpinu sem liggur fyrir hér, og aðra gagnrýni sem hefur komið á fyrri stigum. Mér finnst það til mikillar fyrirmyndar hvernig hæstv. ráðherra hefur unnið að málinu. Að því sögðu held ég að það komi ráðherranum ekki á óvart að enn eru útistandandi nokkur atriði sem ég tel nauðsynlegt að fara gaumgæfilega yfir og að það hljóti að vera mjög rík krafa til þeirra sem um málið fjalla hér, þá fyrst og síðast velferðarnefndar en það vill svo til að ég á þar sæti.

Í upphafi hefði ég talið að það væri betri bragur á því ef við hefðum borið gæfu til þess að láta gera úttekt á eða greina sóttvarnaaðgerðir sem hér var gripið til í heimsfaraldri kórónuveirunnar í ljósi mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Það vill svo til að ég, ásamt fleiri þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, hef lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis þar sem Alþingi ályktar að fela ríkisstjórn Íslands að skipa nefnd þriggja óháðra sérfræðinga til að greina sóttvarnaaðgerðir stjórnvalda í heimsfaraldrinum, ekki síst í ljósi 77., 71. og 75. gr. stjórnarskrárinnar. Ég hygg að það hefði verið skynsamlegt að vinna aðeins heimavinnuna að þessu leyti, að slík úttekt lægi fyrir og á grundvelli hennar og að teknu tilliti til ábendinga þessara sérfræðinga um hvernig til tókst og hvernig staðið var að því að gæta að almennum réttindum borgaranna værum við að glíma við nýja lagasetningu um sóttvarnalög.

Þetta vildi ég sagt hafa áður en ég fer örstutt yfir tvö eða þrjú atriði sem ég vil vekja sérstaka athygli á. Ég geri mér vonir um það og hef góða reynslu af því að vinna að breytingum að málum í samstarfi við hæstv. ráðherra. Þetta er allt sagt í þeirri trú og í trausti þess að þetta góða og mikla samstarf sem ég og hæstv. ráðherra höfum átt, ekki bara í þessu máli heldur í mörgum öðrum málum, haldi áfram og við náum að endingu niðurstöðu sem við getum verið stolt af.

Fyrst varðandi skilgreiningu á samfélagslega hættulegum sjúkdómum. Þar verður að gera breytingu á frumvarpinu. Það er í besta falli undarlegt að takmarkað læknisfræðilegt mat virðist liggja að baki ákvörðun um það hvort sjúkdómur teljist samfélagslega hættulegur, eins og t.d. hversu há dánartíðni fylgir honum, hver smitstuðullinn er o.s.frv. Með leyfi herra forseta ætla ég að vitna í skriflegan fyrirvara sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins gerði um þetta atriði þar sem segir:

„Það má velta því upp hvenær sjúkdómur hefur þær afleiðingar að mikilvæg störf, innviðir eða starfsemi heilbrigðiskerfisins raskist. Munur er á því hvort framangreind starfsemi raskast vegna sjúkdómsins sjálfs, þ.e. fólk er það mikið veikt að það getur ekki sinnt störfum sínum, eða hvort röskunin sé til komin út af sóttvarnaráðstöfunum sem stjórnvöld setja, til að mynda að skylda fólk í sóttkví eða einangrun í allt að 15 daga þrátt fyrir að það sé lítið eða ekkert veikt.“

Þetta er veikleiki í frumvarpinu og fingurbrjótur sem ég tel að við þurfum að skoða vel í velferðarnefnd og breyta.

Ég vil líka vekja athygli á því að þrátt fyrir nokkrar breytingar sem gerðar hafa verið á frumvarpinu til betri vegar á 22., 23 og 24. gr., aðallega er varðar frelsissviptingar og meðferð hjá dómstólum, þá þarf að gera enn frekari breytingar. Ég ætla ekki að tíunda þær hér en það er gríðarlega mikilvægt, m.a. þegar kemur að því að einstaklingur þurfi t.d. að leita á náðir dómara, að tímamörk séu á úrskurð dómara. Það skiptir auðvitað máli að einstaklingar geti leitað réttar síns ef þeir þurfa að sæta einhverjum aðgerðum sem við getum kallað ofbeldi, vegna þess að frelsissvipting er ekki annað en ofbeldi — rök kunna að vera fyrir frelsissviptingunni en engu að síður er verið að beita einstakling ofbeldi — og fái niðurstöðu og úrskurð eins fljótt og hægt er.

Að lokum, herra forseti, er kannski alvarlegasta athugasemdin sem ég hef við frumvarpið, og einnig þingflokkur Sjálfstæðisflokksins, sú að það verður að tryggja aðkomu Alþingis að ráðstöfunum sem hafa umtalsverð áhrif á líf borgara, svipta þá frelsi tímabundið, koma í veg fyrir að þeir njóti fulls athafnafrelsis, sem þeim er þó tryggt í stjórnarskrá, á grundvelli sóttvarnaráðstafana. Ég hef fullan skilning á því að ráðherra þurfi að geta og eigi að hafa heimild til þess að grípa tímabundið til neyðarráðstafana, enda geta slíkar aðstæður skapast að grípa þurfi til þeirra án nokkurs frests. Það er eðlilegt að slík heimild sé í frumvarpinu í allt að tvær vikur eins og þar er gert ráð fyrir. Í rauninni er sóttvarnalækni líka heimilt að grípa til ráðstafana án þess að bera það undir ráðherra tímabundið, en ef ég man rétt er gert ráð fyrir viku eða svo. Ekkert óeðlilegt við þetta, þetta er fullkomlega eðlilegt og nauðsynlegt varnartæki sem menn þurfa að geta gripið til þegar hættuástand skapast og menn vita kannski ekki nákvæmlega hvað er við að glíma þegar kemur að hættulegum smitsjúkdómi. En þegar tekin er ákvörðun um að framlengja sóttvarnaaðgerðir, framlengja kröfu um að einstaklingar skuli fara í sóttkví, framlengja ákvarðanir um að loka skólum, loka veitingastöðum eða hefta athafnafrelsi einstaklinga að öðru leyti þá verður ráðherra að leggja þá ákvörðun undir Alþingi og gefa Alþingi kost á því að skera úr um það hvort og með hvaða hætti þær ráðstafanir skuli gilda til lengri tíma. Það er auðvitað í samræmi við hugmyndir okkar beggja, mínar og hæstv. heilbrigðisráðherra, um opið og frjálst samfélag, lýðræðissamfélag, að til staðar séu varnaglar sem koma í veg fyrir það að fulltrúar framkvæmdarvaldsins setji íþyngjandi reglur til lengri tíma.

Þetta er ein ástæða fyrir því að ég hefði kosið að við hefðum borið gæfu til þess að sameinast um að gera úttekt á því hvernig staðið var að sóttvarnaaðgerðum hér á tímum Covid með tilliti til mannréttindaákvæða stjórnarskrárinnar. Því miður liggur sú greinargerð og sú úttekt ekki fyrir. Mér finnst stundum eins og við séum pínulítið í myrkri þegar kemur að því að setja ný sóttvarnalög. En ég mun þegar þessari umræðu er lokið og málið kemur til hæstv. velferðarnefndar taka til óspilltra málanna og vinna að þeim breytingum sem ég tel að séu nauðsynlegar. Ég veit að hæstv. ráðherra og ég munum eiga gott samstarf í þeim efnum.