154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

sóttvarnalög.

867. mál
[17:43]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er mikið mál sem við ræðum hér. Það er stórt að umfangi, margar lagagreinar og snertir mjög veigamikil grundvallarréttindi eins og hv. þingmaður fór hér yfir í prýðisræðu. Ég vil líka þakka hv. þingmanni fyrir að fara hér svo gaumgæfilega yfir þær athugasemdir sem hann hefur við frumvarpið eins og það er lagt fram. Þannig á þetta að virka á hinu háa Alþingi í 1. umræðu og er það gagnlegt fyrir nefnd. Mig langar að koma að þessum atriðum sem hv. þingmaður nefndi. Þetta dregur líka fram, sem er gott og jákvætt fyrir svona stórt mál, hversu stór atriðin raunverulega eru í frumvarpinu. Við erum hér í umræðu um mál í þriðja sinn, sem er ekki óeðlilegt vegna þess að þetta hafði það mikil áhrif á líf okkar í faraldrinum og varði í það langan tíma. En ég met það svo að við séum hér óhjákvæmilega og nauðsynlega að reyna að gera betrumbætur á þeim lögum sem við fylgjum við slíkar aðstæður. Ég trúi því að við séum að bæta lögin. Mig langar aðeins að nefna í samhengi þessara atriða, til að mynda varðandi skilgreiningu á samfélagslega hættulegum sjúkdómi og stigskiptingunni, að ég tel þetta vera til bóta en ég virði það sem hv. þingmaður kom inn á. Mögulega má segja að það geti verið leiðbeinandi tilmæli í gegnum nefndastarfið til ráðherra um að fylgja því eftir, afmörkun eftir atvikum, í reglugerð en það eru reglugerðarheimildir sem hér fylgja. Ég ætla í seinna andsvari að koma aðeins inn á aðkomu Alþingis, frelsissviptingu og stjórnarskrárbundinn rétt 22. gr. sem hv. þingmaður kom svo vel inn á í sinni prýðisræðu.