154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

sóttvarnalög.

867. mál
[17:46]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Allt sem hæstv. ráðherra sagði hér staðfestir það sem ég var að segja áðan, að það verður gott að vinna að breytingum á þessu frumvarpi í samstarfi við hann og kemur mér ekki á óvart. Hæstv. ráðherra vitnaði hér í samfélagslega hættulega sjúkdóma en í 9. tölulið 4. gr. er orðskýring um hvað samfélagslega hættulegur sjúkdómur er. Þar segir:

„Alvarlegur sjúkdómur sem veldur eða getur valdið alvarlegri röskun á mikilvægum störfum og innviðum samfélagsins og/eða getur leitt til verulega aukins álags á heilbrigðiskerfið verði hann útbreiddur í samfélaginu.“

Vandinn við þessa skilgreiningu, eins og ég var að reyna að koma að áðan, er sá að hér er opnað fyrir það að það sé ekki vegna þess að sjúkdómurinn sjálfur sé hættulegur, og geti valdið alvarlegri röskun á mikilvægum störfum og innviðum samfélagsins, heldur geta ákvarðanir sóttvarnayfirvalda og heilbrigðisyfirvalda um að loka ákveðinni starfsemi verið rótin að því að þessi mikilvæga starfsemi raskist, ekki sjúkdómurinn sjálfur. Ég tel því að það þurfi að skoða þessa skilgreiningu betur.

Síðan er auðvitað rétt, sem hæstv. ráðherra sagði hér, að ég held að þetta frumvarp hafi tekið góðum breytingum, það hefur þroskast vel. En við getum gert betur og þarna eru atriði sem eru mjög mikilvæg í mínum huga, sérstaklega er varðar aðkomu þingsins og hvernig við tryggjum réttindi einstaklinganna sem eru bundin í stjórnarskrá.