154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

sóttvarnalög.

867. mál
[17:48]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir athugasemdirnar. Þær eru mjög gagnlegar, ég verð að segja það. Ég fullyrti hér að þetta væri til bóta frá því sem væri. Þá ætla ég að taka þessa stigskiptingu og skilgreiningu sjúkdóma og setja í samhengi við breytta stjórnsýslu og breiðari nálgun með skipan farsóttanefndar. Ólíkt því sem var þegar sóttvarnalæknir einn og sér gerði tillögu til ráðherra, reyndar með aðkomu annarra, þá er það farsóttanefnd sem gerir það. Í 18. gr. er jafnframt kveðið á um þetta samspil þegar kemur til þessara harðari ráðstafana í samræmi við 28. og 30. gr. frumvarpsins. Þegar þær eru hertar skal ráðherra, eftir atvikum í samráði við farsóttanefnd, kynna velferðarnefnd Alþingis án tafar ákvörðun sína. Þetta er mjög mikilvæg viðbót. Þetta hnykkir ekki bara á mikilvægi aðkomu Alþingis heldur beinlínis krefst þess af ráðherranum að hann komi þegar fyrir nefnd og rökstyðji vel ákvarðanir sínar. Velferðarnefnd getur enn fremur óskað eftir kynningu ráðherra þótt reglum hafi ekki verið breytt. Það er hnykkt á þessum atriðum og þetta samspil við breytta stjórnsýslu tel ég að sé mjög til bóta. Ég ætlaði líka að koma því að varðandi tímarammann í 22. gr., þegar við erum að fara í ákvarðanir um frelsissviptingu, að tekið er fram að aðgerðir sem mælt er fyrir um í stjórnvaldsákvörðun samkvæmt lögum þessum og hafa í för með sér sviptingu frelsis í skilningi 1. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar skuli bornar undir héraðsdóm og að slíkar aðgerðir megi aldrei vara lengur en 15 sólarhringa í senn. (Forseti hringir.) Hér er ég raunverulega bara að benda á það sem er til bóta í samhengi við þær athugasemdir sem hv. þingmaður kemur með hér. Ég þakka sérstaklega fyrir þær af því að þær eru mjög gagnlegar.