154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

sóttvarnalög.

867. mál
[17:51]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir þær ábendingar sem hann fór yfir hér. Þær eru réttar og réttmætar og allar gerðar með það að markmiði m.a. að bæta réttarstöðu einstaklinga, en líka að bæta ákvarðanatökuferlið við þessar umsvifamiklu ákvarðanir sem kunna að vera nauðsynlegar. Ég dreg það ekkert í efa og held að það sé rétt sem hæstv. ráðherra heldur hér fram, að þetta er allt til mikilla bóta. Ég er bara að segja að það má gera betur. Ég óttast, vegna reynslunnar af sóttvarnaaðgerðum sem gripið var til — ég var í upphafi þeirra aðgerða hlynntur þeim og studdi þær, en eftir því sem leið á þær fóru að renna á mig tvær grímur. Ég gagnrýndi þær opinberlega og hygg að ég geti staðið við þá gagnrýni að langmestu leyti. Þess vegna er ég aftur að koma að mikilvægi þess að við áttum okkur á því og gerum upp hvernig við stóðum að þessum sóttvarnaaðgerðum, hvaða ákvarðanir voru teknar, hvernig þær voru teknar og hvaða áhrif þær höfðu á líf einstaklinga, afkomu heimila og möguleika fyrirtækja til að stunda sína starfsemi. Á grundvelli þess lærdóms og þeirrar greinargerðar sem er svo mikilvægt að hafa hefðum við getað gert miklu betur í að ná saman um heildstæð sóttvarnalög.