154. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2024.

Störf þingsins.

[10:40]
Horfa

Rafn Helgason (V):

Herra forseti. Stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans í vikunni um að halda vöxtum óbreyttum hefur djúpstæð áhrif á landsmenn alla. Ungt fólk þessa lands sem festi kaup á eign í vaxtaumhverfi síðustu ára hefur tekið á sig vænan skell vegna þessa yfirgengilega háa vaxtastigs. Ég veit að mörg þeirra eru með kvíðahnút vegna þess að fastir vextir eru að losna og greiðslubyrði lána að taka á sig algerlega nýja vídd. Hvað er til ráða? Það eru jú helst tveir leikendur á þessu sviði sem geta haft eitthvað um málin að segja. Í fyrsta lagi eru það atvinnurekendur og launþegar í sínum kjarasamningum. Þar var orðið við óskum um hófstilltar launahækkanir til að slá á verðbólguna. Slíkt kemur öllum vel enda stuðlar það að lægra vaxtastigi til lengri tíma. En ríkisstjórnin steig inn í þær viðræður með loforð um aukin útgjöld sem á eftir að fjármagna. Hver sem niðurstaðan verður má með réttu segja að launþegar þessa lands séu hér að greiða fyrir sína eigin kjarabætur. Í samfélaginu í dag ríkir samhljómur meðal fólks um tiltekt í ríkisfjármálum og að tekið verði á útgjöldum ríkissjóðs með skynsamlegum hætti. Nær allir landsmenn sjá hag sinn í þeim aðgerðum en ríkisstjórnin lokar augunum fyrir því og lofar nú auknum útgjöldum. Hún er greinilega ekki að spila sama leik og við hin. Ráðherrar hver í sínu horni eru komnir í kosningaham og ætla að leika sér með ríkissjóði í upptakti fyrir næstu kosningar. Þetta er vel þekkt. En á þessum tímum, þegar svo brýnt er að koma vaxtastigi í sæmilegt horf þá er erfitt að horfa upp á þetta. Það er í raun ótækt.