154. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2024.

Störf þingsins.

[10:58]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Forseti. Allt þetta kjörtímabil hefur þingflokkur Pírata fylgt eftir metnaðarfullri loftslags- og umhverfisstefnu sem var kynnt fyrir síðustu kosningar. Eitt af því var að núna í haust lögðum við fram frumvarp um að banna sjókvíaeldi í opnum sjókvíum, frumvarp sem liggur í dag inni í atvinnuveganefnd til umfjöllunar. En við höfum líka bætt við stefnuna og sett ný mál á dagskrá. Um þessar mundir eru t.d. tvö ár síðan við reyndum að gera vistmorð refsivert. Þeirri tillögu var vísað til ríkisstjórnar og ég er því miður að verða svartsýnn á að eitthvað verði úr henni þar. Núna eru í umræðunni hugmyndir sem gætu hreinlega valdið vistmorði; djúpsjávarnámagröftur. Því miður virðist algjört áhugaleysi hjá ríkisstjórninni þar. Utanríkisráðuneytið hefur aldrei sent fulltrúa á fundi þeirra alþjóðastofnana sem um málið fara og hefur ekki mótað afstöðu til þess hvort það eigi yfir höfuð að beita sér fyrir banni á djúpsjávarnámagreftri. Þessu þarf að breyta. Ísland þarf að mæta og tala fyrir hagsmunum náttúru og komandi kynslóða. Umhverfisráðherra og matvælaráðherra komu síðan algjörlega af fjöllum á síðasta ári þegar þau voru spurð að því hér í þingsal hvað þeim þætti um hugmyndir um námagröft á hafsvæðinu á milli Íslands og Noregs, en á þeim tímapunkti var utanríkisráðuneytið engu að síður búið að gefa grænt ljós frá Íslands hálfu. Hér verður ríkisstjórnin að skipta um gír, setja skýra stefnu og vernda vistkerfið í Norður-Atlantshafi.

Núna í hádeginu verður loftslagsverkfall fyrir hafið hér fyrir utan Alþingi. Stór mótmæli þar sem tvær kröfur verða settar fram til stjórnmálafólks: Að banna djúpsjávarnámagröft og að banna fiskeldi í opnum sjókvíum. Píratar standa með þessum kröfum en það eru ekki innantóm orð. Píratar hafa staðið með þessum kröfum í verki og munu halda áfram að berjast fyrir þessum málum hér innan veggja Alþingis.