154. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2024.

Yfirlýsing forsætisráðherra og umræður um hana.

[16:25]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það var dálítið táknrænt að það snjóaði í gær á sama tíma og ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar var kynnt og það má kannski segja að bæði snjókoman og innkoman hafi ekkert verið sérstaklega umbeðin hjá þjóðinni, en veðrið var vissulega táknrænt, fannst mér. Ég hef verið að benda á það að þrír fjármálaráðherrar á sex mánuðum er ekki akkúrat það sem þjóðin þarf á þessum tímum en við heyrðum það áðan hjá forsætisráðherra að honum fannst það algjört aukaatriði að það væri verið að skipta um stóla. Samt tókuð þið mjög langan tíma í að skipta um þessa stóla. Mér finnst það hins vegar vera skýr skilaboð um ákveðinn glundroða, stjórnleysi og stefnuleysi að við fáum þrjá fjármálaráðherra á þessum skamma tíma. Þetta er ekki leiðin sem fullvissar fólk, heimilin í landinu sem eru að berjast af krafti gegn þessu álagi og ofurvextir innan lands eru að sliga almenning. Þetta er ekki traustvekjandi og það er ekki skynsamlegt að mínu mati að skipta svona ört um fjármálaráðherra.

Og talandi fjármálaráðherra, nú fær Framsóknarflokkurinn, og ég óska honum til hamingju með það, að spreyta sig loksins á ríkisfjármálunum í fyrsta sinn, skilst mér, í 45 ár. Við skulum hafa það í huga að feitustu kosningaloforðin fyrir síðustu kosningar komu frá Framsókn þannig að þetta klingir hjá mér viðvörunarbjöllum. Þegar við lítum til sögunnar, til þess tíma þegar Framsóknarflokkurinn var með fjármálaráðuneytið, þá skilaði flokkurinn landinu í 50% verðbólgu og reyndar vann að því að koma á verðtryggingunni sem heimilin í landinu eru ekki beint að djúpelska. Það er líka rétt að minna á það að hann undirbjó m.a. það að taka tvö 0 af íslensku krónunni, enn eitt krónugiggið 1981, fólk ekki alltaf í einhverri afneitun varðandi íslensku krónuna. Þessi 0 eru náttúrlega töpuð íslensku samfélagi og ekki síst íslenskum almenningi. Þetta var þeirra arfleifð þegar kom að ríkiskassanum þá og það er kannski ekki furða að þau hafi ekki fengið að spreyta sig síðan. En ég vil hins vegar óska þeim velfarnaðar, við þurfum á því að halda, þó að ég verði að segja að fyrstu yfirlýsingar ráðherra Framsóknarflokksins í fjármálaráðuneytinu er ekki beint traustvekjandi. Það á ekki að ljá því eyru að sýna aðhald, að fara betur með peninga ríkissjóðs.

Það er reyndar ekki nema sólarhringur eða innan við sólarhringur síðan ríkisstjórnin tók við völdum og strax erum við byrjuð að heyra ákveðinn ágreining, ákveðinn núning á milli flokka af því að það er ekki talað skýrt. Það eina sem við fengum að heyra, og við í Viðreisn fögnum, var að það á ekki að mæta þessu með hærri sköttum á almenning. Það er fagnaðarefni út af fyrir sig. En við fáum engin svör um það hvernig aðhaldið eigi að vera. Það á allt eftir að skýrast og ég vil hvetja þau í ríkisstjórninni til að útskýra það.

Vextir eru líka verulegt áhyggjuefni og við í Viðreisn höfum verulegar áhyggjur af þeim himinháu vöxtum sem herja af miskunnarleysi á íslensk heimili, íslenska bændur. Við heyrum það þegar við ferðumst um landið og tölum við bændur að þeir eru fyrst og fremst að sligast undan fjármagnskostnaði. Af þeim 12 milljörðum sem þeir telja að þeir þurfi inn í kerfið eru 5 milljarðar út af álagi fjármagnskostnaðar út af íslensku krónunni.

Það er svolítið áhugavert að heyra þegar hæstv. forsætisráðherra segir að Seðlabankinn spái verðbólgu niður í 6%. Ég vona það. (Gripið fram í: Fjögur.) 4%. Ég vona það svo innilega og við eigum öll að vinna að því og við í Viðreisn munum styðja ríkisstjórnina í þá veru. En ég óttast að það raungerist sem fjármálamarkaðurinn hefur m.a. verið að reikna með og vara við, að það verði raunvaxtahækkun á næsta ári. Það eru vond skilaboð fyrir íslensk heimili sem eru nákvæmlega að sligast undan vöxtum að það verði líklega raunvaxtahækkun. Þetta er spá sem fjármálamarkaðurinn er að setja fram og ég vona að hún verði ekki að veruleika en það stefnir í þetta.

Við fylgdust með þessum stólaleik sem fór fram í gær en við sjáum eftir sem áður að það er málefnaleg stjórnarkreppa í landinu. Við finnum það svolítið hér í dag á ræðum ráðherra, hvernig þeir eru að reyna að réttlæta eigin tilvist út frá hugsjónum, út frá hugmyndafræði, ef það er eitthvað eftir af henni reyndar, til þess að vera áfram í þessari ríkisstjórn. Auðvitað spyrjum við okkur þegar við heyrum að það eigi að lækka vexti og verðbólgu. Það er samt þannig að Seðlabankinn gat ekki lækkað vexti því að ríkisstjórnin var ekki búin að standa sig í aðhaldi eða sýna fram á stefnufestu í ríkisfjármálunum. Nú á líka að ná stjórn á landamærunum og það á að sækja miklu meiri græna orku fyrir byggðir og atvinnulíf í landinu. Fínt. Ég ætla að styðja þetta en þá segi ég bara: Velkominn til leiks, kæri Sjálfstæðisflokkur, sem er búinn að stýra þessu í 11 ár, þessum málaflokkum í 11 ár. Allt í einu núna á að fara að gera eitthvað. Þá spyr ég: Eru þið svo ómakleg að segja að Katrín Jakobsdóttir hafi verið fyrirstaðan í einhverjum framförum á þessum vettvangi? Er það svarið? Hvert er svarið í þessu? Eða er það kannski af því að Framsóknarflokkurinn er kominn í fjármálaráðuneytið? Gleymum því ekki: 11 ár við stjórn þessara mála og það er verið að gefa út yfirlýsingu núna um að nú eigi að ná tökum á þessu. Þetta er ekki smart. Það er ekki festa í þessu.

Síðan komum við að Vinstri grænum í þessu og það er auðvitað áhugavert að fylgjast með þeim. Við munum það vel að hæstv. innviðaráðherra Svandís Svavarsdóttir sagði í viðtali á sínum tíma til að réttlæta það að fara inn í þessa ríkisstjórn 2017 að hún þyrfti að eiga í innri samningaviðræðum við sjálfan sig. Mig minnir að hún hafi sagt: Það var efi í innyflunum. Hún réttlætti samstarfið á þeim grunni að VG hafi haft lykilstöðu í ríkisstjórninni, enda sæti við borðsendann, og ég skil það, ekki bara kona heldur líka sósíalisti og formaður Vinstri grænna. Hún sagði það ótrúlegt afl í að hafa Katrínu Jakobsdóttur þar og finna fyrir þeim krafti. Ég skil það mjög vel, þetta var mjög skiljanleg réttlæting. Að hluta til er þessi réttlæting að einhverju leyti þarna enn þá. Vissulega er Bjarni Benediktsson, hæstv. forsætisráðherra, ekki kona, ég held að við áttum okkur á því, en það má alveg efast um það hvort hann sé fjarri þeim sósíalisma sem oft hefur verið predikaður þegar við horfum á ríkisfjármálin. Það má líka alveg efast um það hver sé formaður Vinstri grænna í dag en það er önnur saga.

Þetta var eitt af því sem ég vildi draga fram hér og ég vil líka draga fram þá hvatningu til nýs matvælaráðherra að láta almannahagsmuni ganga alltaf framar sérhagsmunum. Almannahagsmunir framar sérhagsmunum. Þetta skiptir máli af því að það mun reyna núna strax á matvælaráðherra gagnvart eigin ráðuneyti, hans eigin ráðuneyti er svolítið að skamma gamla þingmanninn, Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, sem sat í atvinnuveganefnd. Það gengur ekki og það er ósmekklegt hvernig ríkisstjórn Íslands og meiri hlutinn hér á þingi ásamt stuðningi einhverra annarra notar þessa miklu velvild þjóðarinnar í garð bænda. Við viljum styðja við bændur. Við viljum gera allt til þess að þeir geti staðið sjálfir hnarreistir og flottir í sínum mikilvægu störfum fyrir land og þjóð en sú velvild þjóðar var misnotuð að mínu mati. Misnotuð til þess að moka undir milliliði. Þess vegna vil ég hvetja nýjan hæstv. matvælaráðherra til að taka á þessu og ekki láta sínar ákvarðanir miðast við það hvernig lundernið er hverju sinni í Sjálfstæðisflokknum eða Framsóknarflokknum. Muna: Almannahagsmunir framar sérhagsmunum. Það verður okkar leiðarstef í Viðreisn þegar við veitum þessari ríkisstjórn aðhald og mér sýnist á fyrstu skrefunum að ekki veiti nú af.