154. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2024.

Yfirlýsing forsætisráðherra og umræður um hana.

[17:20]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Ég óska hæstv. forsætisráðherra, Bjarna Benediktssyni, til hamingju með nýtt embætti og óska ríkisstjórn hans velfarnaðar í starfi. Fólkið í landinu treysti okkur hv. alþingismönnum fyrir þeirri miklu ábyrgð að stýra landinu, taka ákvarðanir sem leiða til betri lífskjara fyrir alla hópa samfélagsins, landsmenn alla. Um leið treysta þau okkur til að standa í stafni við þær áskoranir sem mæta okkur hverju sinni. Margar áskoranir hafa mætt okkur sem þjóð undanfarin ár. Má þar nefna heimsfaraldur, fjölbreytta náttúruvá og stríð í heiminum.

Ísland er land sem er ríkt af auðlindum og öflugum mannauði sem býr yfir mikilli seiglu. Stjórnvöldum ásamt þjóðinni hefur tekist vel að takast á við þessar stóru áskoranir sem bætast ofan á það verkefni að auka hagsæld íslensks samfélags. Það skiptir miklu máli að í stafni standi stjórnvöld sem standa keik þrátt fyrir ágjöf og hlaupist ekki undan verkum þótt á móti blási stundum, stjórnvöld sem eru tilbúin að takast á við umdeild og erfið verkefni, miðla málum og standa undir þeirri ábyrgð sem þjóðin treysti þeim fyrir. Það er það sem samstarf þessara þriggja flokka hefur snúist um síðastliðin tæp sjö ár, að mynda hér stöðugleika í landinu til að takast á við erfið verkefni og verja lífskjör landsmanna, lífskjör sem mælast hvað hæst miðað við þau lönd sem við berum okkur helst saman við.

Það er vissulega mikil áskorun að mynda öflugan meiri hluta, þingmeirihluta, hér á Alþingi þegar á þinginu sitja átta mismunandi þingflokkar, hver með sína skoðun á hlutunum og þar sem þarf að lágmarki þrjá flokka til að mynda þingmeirihluta. Núverandi stjórnarflokkum hefur tekist þetta með ágætum árangri. Hér hafa verið kláruð stór og umdeild mál sem hafa beðið afgreiðslu lengi. Má þar nefna að hér var kláruð rammaáætlun, breyting á útlendingalögum fór í gegn á síðasta löggjafarþingi og er komið annað frumvarp til breytinga á útlendingalögum inn í þingið núna. Nú liggur einnig fyrir þinginu frumvarp hæstv. félagsmálaráðherra um mikilvægar breytingar á almannatryggingakerfi öryrkja sem hefur verið í vinnslu í áratug.

Eftir umræðurnar hér í dag og eftir að hafa heyrt í óstarfhæfri stjórnarandstöðunni, sem getur ekki einu sinni veitt ríkisstjórninni málefnalegt aðhald, sé ég að með núverandi ríkisstjórnarsamstarfi getum við best staðið undir þeim verkum og þeirri ábyrgð sem þjóðin kaus okkur til að sinna.

Mikilvægustu verkefni okkar næstu misserin eru að verja heimilin og fyrirtækin í landinu með því að tryggja áframhaldandi lækkun á verðbólgu og skapa skilyrði fyrir vaxtalækkun, tryggja að innviðirnir séu traustir með því að byggja þá upp og sjá til þess að álag á þeim aukist ekki að óþörfu. Og við þurfum að takast á við þær afleiðingar sem náttúran býður okkur upp á eins og við Grindvíkingar höfum fengið að kynnast undanfarna mánuði. Það gerum við með því að stunda ábyrg ríkisfjármál samhliða því að auka hér verðmætasköpun með aukinni auðlindanýtingu, til að mynda í gegnum aukna orkuframleiðslu, með aukinni nýsköpun og tryggja að stjórnvöld greiði götu borgarans en standi ekki fyrir óþarfahindrunum. Nýta þau fjölmörgu tækifæri sem Ísland býr yfir. Það er ávallt það sem við í þingflokki Sjálfstæðisflokksins fáum skýr skilaboð um þegar við förum hringinn í kringum landið: Hafið grunninnviðina í lagi þannig að við getum sinnt okkar störfum og verðmætasköpun úti á landi og látið okkur svo bara í friði, þvælist ekki fyrir. Við skulum skapa verðmætin ef við höfum grunninn til þess og það eru engar óþarfahindranir.

Ábyrgð okkar er mikil í að tryggja landamæri okkar með samþykkt frumvarps dómsmálaráðherra um breytingu á útlendingalögum og lögreglulögum. Það er ekki bara það að innviðir okkar bresta undan of miklu álagi heldur getur rýmri löggjöf hér á landi verið farvegur fyrir skipulagða glæpastarfsemi og viðkvæmir hópar eins og fólk á flótta geta orðið andlag slíkrar starfsemi. Þá má ekki gleyma því að grunnur lýðræðissamfélags er öryggi og öryggistilfinning borgaranna.

Kæru alþingismenn. Sameinumst um að standa undir þeirri ábyrgð og því trausti sem þjóðin fól okkur og tökumst málefnalega á um verkefnin fyrir íslenska þjóð.