154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

staða heilsugæslunnar.

[10:40]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið en ég er samt engu nær um það hvað verður nákvæmlega gert til þess að draga úr sóun og draga úr skriffinnsku í heilsugæsluþjónustu. Á þriggja ára tímabili voru 504.670 vottorð framleidd hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Reglugerðin um læknisvottorð hefur ekki verið uppfærð síðan 1991 meðan lagaumhverfið hefur að öðru leyti gerbreyst. Í Svíþjóð tíðkast það t.d. ekki að heilsugæslulæknar séu látnir skrifa álitsgerðir og vottorð fyrir tryggingafyrirtæki og lífeyrissjóði og þar geta vinnuveitendur og skólar heldur ekki farið fram á læknisvottorð nema veikindi standi yfir í meira en viku.

Við getum tekið upp sams konar reglur á Íslandi og það þarf ekki að láta einhverja starfshópa og stýrihópa malla í mörg ár til þess. Sumt af þessu eru bara einfaldar lagabreytingar og það kallar á pólitískan vilja. Ég fagna því auðvitað ef ég er að hreyfa hér við hæstv. heilbrigðisráðherra og hann ætlar að leggja eitthvað fram á næstu dögum, eitthvað sem hefur ekki hreyfst núna í tvö ár. Við í Samfylkingunni köllum eftir því að meira sé fjárfest í heilbrigðiskerfinu en þetta eru takmarkaðir fjármunir (Forseti hringir.) og við eigum að leita allra leiða til að nýta þá sem best. Hvers vegna eru heilsugæslulæknar t.d. gerðir að hliðvörðum við úthlutun á fullorðinsbleyjum? Hver er ávinningurinn? Eru þetta beiðnir sem er verið að misnota í massavís? Hver er ávinningurinn af þessu? Verður þessu breytt (Forseti hringir.) á næstu dögum, hæstv. ráðherra? Og hvenær verður úreltu og handónýtu sjúkraskrárkerfi skipt út fyrir nýtt kerfi sem uppfyllir kröfur 21. aldar?