154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

kaup Landsbanka á TM.

[10:46]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti: Hér færir hv. þingmaður fram harða gagnrýni á stjórn og stjórnendur Landsbankans sem enginn ráðherra ber beina ábyrgð á og ríkisstjórnin hefur ekkert með dagsdaglegan rekstur Landsbankans að gera. Það sem við höfum ákveðið með lögum og í eigendastefnu er að byggja upp fyrirkomulag sem felur sjálfstæðri stofnun, Bankasýslunni, að fara með allt hlutafé ríkisins í fjármálafyrirtækjum og þar með að hafa afskipti af því með hvaða hætti er kosið í stjórnir fjármálafyrirtækjanna og síðan samkvæmt samningi sem gerður er við fjármálafyrirtækin á að ræða allar stærri og meiri háttar ákvarðanir við fulltrúa eigandans, Bankasýsluna.

Hér segir hv. þingmaður að fjármálaráðherra, eða eftir atvikum forsætisráðherra, ætti að beita sér fyrir því að samningum sem hér er vísað til sé rift. Ég myndi fyrir mitt leyti segja að þótt ég sé pólitískt sammála því að það sé óréttlætanlegt að ríkið sé að auka umsvif sín á fjármálamarkaði þá leiði það ekki af sjálfu sér til þess að hægt sé að taka slíkar ákvarðanir án þess að gaumgæfa t.d. öll lagaleg atriði. Eða hvað myndu menn segja um fjármálaráðherra sem rifti slíkum kaupum ef í ljós kæmi að með því væri ríkinu bökuð margra milljarða skaðabótakrafa? Hvað myndi hv. þingmaður segja í því tilviki? Myndi hv. þingmaður styðja ráðherrann óháð mögulegri bótakröfu á ríkissjóð í því að rifta bara kaupunum vegna pólitískra sjónarmiða óháð afleiðingum fyrir íslenska skattgreiðendur?