154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

kaup Landsbanka á TM.

[10:49]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla í fyrsta lagi að gjalda varhuga við því að hér í þingsal sé fjallað um löggerninga í samfélaginu sem glæp. Með því er, held ég, algerlega að ósekju verið að varpa alvarlegri sök á fólk sem ég tel reyndar að hafi bara verið að vinna sína vinnu eftir góðri samvisku. Það er hins vegar alveg ljóst að það eru brotalamir í því hvernig ákvarðanataka um mál eins og þetta fer fram og ég vil sérstaklega benda á eitt atriði í því sambandi. Ef það er eitthvað eitt sem við lærðum hér í fjármálahruninu, af rannsóknarskýrslum til Alþingis um það hverjar voru orsakir og aðdragandi að falli fjármálakerfisins, þá var það það að í mörgum tilvikum skorti alla formfestu í samskiptum. Hér eru menn að vísa til símtala, funda sem engar fundargerðir hafa verið ritaðar um, eftir atvikum einhver önnur skilaboð — þetta er auðvitað algerlega ófullnægjandi sem grundvöllur fyrir því að bankastjórn Landsbankans, stjórnendur þar eða einhverjir aðrir, hafi lifað í þeirri trú að stjórnkerfið væri að fullu upplýst.