154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

brottfall ýmissa laga á sviði fjármálamarkaðar.

913. mál
[12:10]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Eins og hann segir þá eru lánveitingar til búreksturs annars eðlis en kannski til flests annars reksturs. Fyrir það fyrsta eru veð í bújörðum væntanlega eitthvað það tryggasta sem hægt er að veðsetja. Landið fer ekki neitt og þar að auki eru allar líkur á að ábúendur og afkomendur þeirra muni ekki heldur fara neitt þannig að lánastofnanir þurfa ekki miklar áhyggjur að hafa. Þess vegna hljótum við öll að sýna því mikinn skilning þegar bændur kvarta sáran undan álaginu af vaxtagreiðslum af þeim milljörðum sem bújarðir hringinn í kringum landið eru skuldsettar fyrir. Ég vænti ekki einu sinni svars hér. Mig langar bara að bara leggja það inn að þetta sé eitthvað sem við þurfum að skoða. Þetta er hefðbundið fjármálakerfi sem er búið til utan um viðskiptafyrirtæki. Nær það endilega utan um búrekstur?