154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

innviðir markaða fyrir fjármálagerninga sem byggjast á dreifðri færsluskrártækni.

914. mál
[12:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þó að kannski í andsvari hv. þingmanns hafi ekki beint verið falin (Gripið fram í.) sérstök spurning til ráðherra þá er held ég mikilvægt í alþjóðlegum skuldbindingum okkar að við séum að tryggja að íslenskir ríkisborgarar og lögaðilar eigi sama rétt og aðrir. Af því að hv. þingmaður hefur fyrr í dag í öðru máli fjallað um 6. kaflann og mat á áhrifum þá er hann þar, þar sem fjallað er um áhrifin á ólíka þætti. Þar á meðal er fjallað um að þetta geti haft jákvæð áhrif á fjármálamarkaðinn vegna þess að hér sé starfandi aðilum gert kleift að nýta nýtingarmöguleika og innleiða nýja tækni. Þetta er, eins og hv. þingmaður var að benda hér á, tilraunalöggjöf. Hún er til þess að taka utan um það að það er margt að gerast á þessum markaði og hér verður þá íslenskum aðilum gert kleift að taka þátt í því.