154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

916. mál
[13:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég kom inn á í máli mínu er þetta annars vegar hluti af stjórnarsáttmála ríkisstjórnar sem nú situr og nýverið hefur endurnýjað sig með mannabreytingum. Í öðru lagi er þetta alveg í takt við það að við höfum verið að auka smátt og smátt ákveðin réttindi sjóðfélaga. Ég nefndi hér annars vegar hækkunina á lífeyrisiðgjaldinu, tilgreinda séreign. Við getum líka nefnt lögin um fyrstu fasteign þar sem heimilt er að nýta séreignarsparnað til að fjárfesta í sínu eigin íbúðarhúsnæði sem og til að lækka greiðslubyrði, sé um óverðtryggt lán að ræða, greiða bæði inn á höfuðstól og lækka greiðslubyrðina yfir tiltekinn tíma. Tilgreinda séreign heimiluðum við, sem hefði mátt kalla aðra fasteign þar sem við heimiluðum fólki sem hafði misst heimili sín að nýta þann hluta.

Ég held að þetta skref, sem er sannarlega lítið og varfærnislegt — og rétt hjá hv. þingmanni að ýmsir aðilar eru ekki hlynntir eða halda því fram að þetta sé varhugavert. Þessir aðilar voru líka á móti fyrstu fasteign og tilgreindri séreign þannig að ég held að það sé allt í lagi að þetta mál komi hingað inn í þingið og fái þinglega meðferð og þá yfirferð sem þar er til þess að átta sig á því hvort hér sé ekki bara áframhald á þróun lífeyrissjóðakerfisins þar sem valfrelsi einstaklingsins sé að einhverju leyti bætt en tryggt að áhætta viðkomandi fjárfestinga sé ekki meiri heldur en er í raun hjá þeim vörsluaðilum sem eru með þá fjármuni frá einstaklingnum.