154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

umferðarlög.

923. mál
[13:37]
Horfa

innviðaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og kannski gott að nefna það svona með almennum hætti að frumvarpinu er ætlað að mæta þessum áskorunum sem við erum í raun og veru að horfast í augu við í ljósi reynslunnar. Þar með setur þessi reynsla og þau gögn sem við höfum verið að safna upp á undanförnum árum, af því að þessi ferðamáti er tiltölulega nýtilkominn, okkur þær skyldur á herðar að horfast í augu við það hvert hlutverk löggjafans er í því að stuðla að öruggri notkun þessara tækja, bæði fyrir þá sem þau nota og aðra sem deila þá væntanlega rýminu í umferðinni.

Það hefur auðvitað verið talað töluvert um, eins og hv. þingmaður nefnir hér, viðurlög við akstri hlaupahjóla undir áhrifum áfengis og samkvæmt gildandi umferðarlögum á allur akstur ökutækja undir áhrifum áfengis undir sömu grein laganna þar sem refsiramminn er ákveðin sekt eða fangelsi allt að tveimur árum. Það er staðan. En það sem við erum að gera hér ráð fyrir er að viðurlögin verði útfærð nánar í sektarreglugerð ráðherra að fengnum tillögum þannig að við séum í raun og veru að gæta sérstaklega að því í hverju tilviki hvers konar viðurlög ættu helst við. Það á núna einnig við um hjólreiða- og hestamenn sem og ökumenn rafmagnshlaupahjóla samkvæmt gildandi lögum og hefur átt við um ökumenn rafmagnshlaupahjóla um áratugaskeið. Þau voru fyrst felld í flokk reiðhjóla o.s.frv., eins og hv. þingmaður þekkir, og þá vörðuðu þessi brot gegn umferðarlögum sektum, varðhaldi eða fangelsi. En þarna er þessi hluti málsins einnig til skoðunar.