154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

umferðarlög.

923. mál
[13:58]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég ítreka bara það sem ég sagði áðan, neysla áfengis og notkun farartækja sem fela í sér annað en notkun tveggja jafnfljótra fer almennt ekki vel saman. Hv. þingmaður minnist hér á danska fyrirmynd og ég held að það sé leitun að manneskju sem hefur dvalið lengur en í nokkrar vikur í senn sem ung manneskja í Danmörku sem hafi notað reiðhjól að öllu leyti án þess að, ja, hvað skal segja, ekki bara andað að sér fersku lofti. En svona að öllu gamni slepptu, þetta er ekkert gamanefni, þá megum við ekki horfa fram hjá því að varnaðaráhrif af þessum refsiaðgerðum sem felast í sviptingu ökuréttinda til að aka vélknúnu ökutæki, sem heita alla jafna bara fólksbílar, má ekki ofmeta í þessu skyni. Við vitum auðvitað að hlutfall þeirra sem meiða sig á ákveðnum tímum sólarhrings eru karlar sem eru um og yfir miðjan aldur annars vegar og svo hins vegar ungmenni undir 24 ára aldri. Það eru kannski þessir helstu tveir hópar. Ég tel að það sé alls ekki tímabært að fara í svo róttækar aðgerðir að kveða á um sviptingu ökuréttinda á meðan innviðir, eins og hv. þingmaður minnist réttilega, eru svo báglega staddir, sérstaklega í borgarlandinu. Það vantar sárlega meira rými (Forseti hringir.) fyrir smáfarartæki til þess að geta náð fram þeim kostum sem þau bjóða upp á.