154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

umferðarlög.

923. mál
[14:02]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna og óska henni góðs gengis í nýju ráðuneyti og hlakka til samstarfsins. Ég tel að það frumvarp sem hún mælti hér fyrir sé til bóta og að það skipti máli að við styrkjum og bætum umgjörðina í kringum þann mikilvæga ferðamáta og þá mikilvægu viðbót í ferðamátaflóruna sem rafhlaupahjól eru og önnur smáfarartæki.

Mig langar að koma hér upp og beina því bæði til hæstv. ráðherra en einnig til umhverfis- og samgöngunefndar að skoða hvort sé hægt að bæta því inn í þetta frumvarp eða hvort það er eitthvað til að taka áfram í vinnunni, sem lýtur að því að skilgreina frekar rammann um viðskilnaðinn, þ.e. hvernig ganga á frá smáfarartækjum líkt og rafhlaupahjólum. Ég var með skriflega fyrirspurn til munnlegs svars við fyrirrennara hæstv. ráðherra í embætti sem byggði í rauninni á lítilli teiknimynd þar sem sjá mátti fólk á rafhlaupahjólum dásama hvað það væri mikið frelsi fólgið í ferðamátanum en fyrir aftan var einstaklingur í hjólastól sem komst ekki áfram vegna þess að rafhlaupahjól hafði verið skilið eftir þvert yfir gangstétt. Þetta er atriði sem þarf að taka alvarlega og huga að.

Ég held að við séum meira og meira að átta okkur á því hvaða gildi algild hönnun hefur þegar kemur að mannvirkjum og við höfum náð talsverðum árangri hér á Íslandi, t.d. þegar kemur að fláum í gangstéttum, til þess að ólík farartæki geti nýtt sér innviðina sem gatna- og gangstéttakerfið er, þó svo að vissulega megi alveg finna staði þar sem þetta mætti betur fara. En til þess að þessi algilda hönnun nýtist, og hún nýtist ekki bara fólki í hjólastól eða með gönguhjálpartæki heldur líka reiðhjólafólki eða fólki með barnavagn, þá má það auðvitað ekki vera svo að öðrum farartækjum sé lagt þannig eða þau skilin eftir þannig að það sé ekki hægt að nota gangstéttirnar. Því miður, miðað við hvernig oft er gengið frá rafhlaupahjólum, þá held ég að það þurfi að ganga lengra í að setja reglur hvað þetta varðar. Mig langaði án þess að lengja umræðuna mikið á að koma þessu sjónarhorni hér til skila því að það skiptir máli. Það er til að mynda partur af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks að fatlað fólk hafi aðgengi að samfélaginu á öllum sviðum og það að komast um götur borgarinnar er svo sannarlega þar undir. Mig langaði bara að draga þann vinkil inn í umræðuna hér.

Ég vil bæta því svo við í lokin að eftir að ég fór að vekja máls á þessu hvað varðar aðgengi fatlaðra hef ég einnig fengið ábendingar frá reiðhjólafólki sem hefur lent í slysum vegna þess að það hefur hjólað jafnvel á miklum hraða á dimmum stígum á rafhlaupahjól sem hafa verið skilin eftir þar sem enginn á kannski von á þeim.

Frú forseti. Ég vona að þetta mál sem hér var mælt fyrir komi bara fljótt og örugglega aftur hingað inn í þingsal og að við samþykkjum það kannski með þeim breytingum sem ég hef verið að tala hér fyrir, en ef ekki þá a.m.k. að hæstv. ráðherra taki þetta inn í frekari vinnu hjá sér í sínu ráðuneyti.