154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

umferðarlög.

923. mál
[14:08]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra framsöguna á þessu fyrsta máli sem hún leggur fram í nýju embætti. Því miður er það ekki mál þar sem hún hélt um pennann heldur annar ráðherra. Ég velti fyrir mér hvort málið hefði kannski tekið meiri breytingum á milli löggjafarþinga ef núverandi hæstv. ráðherra hefði stýrt vinnu innan ráðuneytisins vegna þess að það eru ákveðin vonbrigði að það komi til þingsins nánast óbreytt.

Á síðasta löggjafarþingi var mikill ágreiningur um frumvarpið eins og það leit út. Þá var það umfangsmeira því að það voru EES-reglur inni í því í líka sem síðan voru klofnar frá til að hægt væri að klára þær án þess ágreinings sem ríkti um þau ákvæði sem hér liggja fyrir. En þann ágreining þarf einhvern veginn að leiða í jörð vegna þess að ólík sýn fólks á þetta mál sprettur, að mér finnst, öll af mjög góðum ásetningi. Þannig kalla hjólreiðamenn t.d. mjög eftir því að einhver rammi sé settur utan um, eins og hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir nefndi, hvar sé eðlilegt að skilja smáfarartæki eftir og hjólreiðamenn lenda oft og tíðum í því að rekast á afvelta hoppskútur á hjólastígum. En sami hópur áttar sig líka á því hversu mikilvægt það er að styðja við þróun á öðrum samgöngumátum en ofnotkun einkabílsins sem við þekkjum allt of vel.

Þá er úr sömu áttinni talað um mikilvægi þess að greina ástæður óhappa og slysa miklu betur. Það sem kemur með þessu frumvarpi, ef það verður að lögum, er að það verður hægt að greina óhöpp á reiðhjólum og smáfarartækjum miklu betur í öllum sjúkraskrám vegna þess að hefðbundnir samgönguhjólreiðamenn hafa legið undir því ámæli á síðustu árum að allt í einu sé slysatíðni þeirra að snaraukast, bara vegna þess að einhverjir miðaldra karlar hafa fengið sér tveimur rauðvínsglösum of mikið og tekið hoppið heim og lent illa í því á gangstéttinni.

Það er ekkert launungarmál að óhöpp eru allt of tíð á smáfarartækjum en við þurfum hins vegar að greina ástæður þess aðeins betur, vegna þess að þó að stundum sé vísað til þess að áfengi sé með í spilinu þá er líka, og þetta höfðum við úr umsögnum lækna sem komu fyrir nefndina á síðasta löggjafarþingi, áhrifaþáttur í þessu innviðirnir sem fólk hjólar á. Ég myndi halda að það sé sennilega stærsti þátturinn. Ég veit að hæstv. innviðaráðherra er mér sammála um að það er ekkert sem skiptir meira máli til að styðja við virka samgöngumáta en að byggja upp innviði þar sem fólk upplifir öryggi. Við eigum bara allt of langt í land með það.

Það sem mögulega gæti skilað einna jákvæðastri slíkri þróun í átt til öryggis þeirra sem nota smáfarartæki eru ekki endilega aldursmörkin eða vínandamörkin sem mælt er fyrir í þessu frumvarpi, heldur sú tillaga að það megi nota þessi farartæki á götum þar sem hámarkshraði er innan ákveðinna marka, vegna þess að staðreyndin er sú í þessu öfugsnúna samfélagi sem við búum í að bílar aka á miklu betri, sléttari og vandaðri innviðum en okkur er boðið upp á á hjólastígum, hvað þá gangstéttum með sín hellubrot og kanta og ótal beygjur og sveigjur á leið meðfram og yfir götur. Þetta endurspeglar náttúrlega þann viðsnúning sem þarf að verða á hugarfari löggjafans og bara þeirra sem búa til samgöngukerfið, að það þarf að setja fólkið sem er að iðka virka samgöngumáta í forgang og sýna það með því að innviðirnir geti borið þessa samgöngumáta með öruggum hætti.

En einmitt varðandi þessa hugmynd um að mæla fyrir því að á akbrautum þar sem leyfilegur hámarkshraði er 30 km eða minni megi smáfarartæki fara út á götu, þá kom fram áhugaverður landsbyggðarvinkill við umfjöllun nefndarinnar síðasta vetur, sem kemur reyndar dálítið á óvart að hafi ekki náð eyrum hæstv. fyrrverandi innviðaráðherra, sem þó skrifaði þetta frumvarp, sem er sá að víða úti um land eru vegir með 50 km hámarkshraða alls ekkert umferðarþungir, alls ekkert hættulegir og alls ekki endilega með gangstéttum. Gangstéttir eru svona lúxus stærri sveitarfélaga. Í smærri sveitarfélögum tók sig kannski einhver til fyrir 30 árum og náði að hella steypu í nokkrar stéttir sem síðan hafa sprungið og sveigst á alla kanta en við hliðina á þeim er stráheill og sléttur akvegur þar sem bílar fara á 50 km hraða að hámarki. En þeir eru svo ósköp fáir og þeir eru svo vanir því að vera í nábýli við börn á leið í skóla eða á æfingar, fólk í útreiðartúr, hjólreiðamenn, að mögulega er þessi 50 km vegur alveg jafn öruggur og 30 km gatan í Reykjavík.

Ég velti því fyrir mér hvort það ætti kannski bara að setja hærri mörk og eftirláta skipulagsvaldi sveitarfélaga að útfæra hvort einhver ákveðin 50 km gata sé örugg eða ekki. Eða, svo maður dragi upp þingmál sem sá sem hér stendur hefur lagt fram, að gera 30 km hámarkshraða að staðalmörkum í þéttbýli, vegna þess að þar erum við komin með breytingu sem myndi hafa jákvæð áhrif á alla byggðaþróun, myndi hafa jákvæð umhverfisáhrif með því að draga úr hávaða og svifryki, myndi draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, sem aukast meira en línulega eftir því sem hraði eykst, og myndi gera skipulagsyfirvöldum kleift að skipuleggja þéttar við akvegi skemmtilegra þéttbýlisumhverfi, betri borgarbrag, eins og við myndum tala um það í tilviki Reykjavíkur.

Ég held að við þurfum að gera annaðhvort, að færa skipulagsyfirvöldum þann möguleika að leyfa smáfarartæki á fleiri vegum en þeim sem miða við 30 km hámarkshraða eða, sem er eiginlega það sem ég vildi helst, að breyta norminu, breyta viðmiðuninni þannig að 30 kílómetrarnir séu það sem gengið er út frá, hraði sem drepur fólk ekki ef bílar klessa á það, á meðan 50 km hraði drepur það eiginlega miklu oftar. Nú man ég ekki tölurnar af því að frumvarpið sem ég vann um þetta er ekki hér við höndina.

Svo langar mig að nefna gagnrýni sem kom fram síðasta vetur varðandi aldursmörkin. Ég skal viðurkenna að það togast dálítið á í mér. Tökum bara dæmi um fjölskyldu sem býr í efri byggðum Kópavogs. Börnin eru dugleg í íþróttum en íþróttafélögin eru einhvern veginn öll staðsett svona nokkurn veginn niðri við sjávarmál, strætósamgöngur eru misgóðar í Kópavogi þannig að það hefur orðið dálítið vinsælt á þessu svæði að kaupa hopphjól eða rafskútur, það er víst orðið sem við notum, smáfarartæki, til þess að krakkarnir geti bara skutlað sjálfum sér á æfingar. Jú, jú, auðvitað eru þau stundum of mörg á þessu, fara stundum ógætilega. Auðvitað þarf að kenna þeim að sýna öðrum í umferðinni tillitssemi. En þarna er eitthvað jákvætt að gerast sem snýst um það að börn og ungmenni eru farin að koma sér sjálf yfir lengri veg og draga þar með úr freistni foreldra til að skutla þeim. Helst vildum við væntanlega að þau myndu bara nota hjól, eða ef þau þurfa aðstoð upp brekkuna í Kópavogi, þá hjól með rafsveifarbúnaði til að hjálpa sér. En við þurfum að vera opin fyrir því að kannski er allt í lagi að einhver þeirra noti þessi smáfarartæki sem hjálpa þeim að halda foreldrunum frá því að keyra bílinn sinn að óþörfu.

Svo langar mig að staldra hér aðeins við hlutlæga viðmiðið varðandi magn vínanda, vegna þess að það er atriði sem var gagnrýnt allan feril þessa máls. Það segir nú kannski dálítið um forvera hæstv. ráðherra í embætti að upphaflega var lagt til að setja hlutlæg viðmið gagnvart bæði notendum smáfarartækja og hestamönnum þannig að það yrði hægt að mæla vínið í blóði þeirra sem væru fullir á baki hesta. En það féll út í ráðuneytinu eftir samráðsferli, þannig að sá ráðherra var einhvern veginn opnari fyrir því að fólk gæti fengið sér einn eða tvo og stigið á bak hesti, en hann átti kannski erfiðara með að spegla sig í hinum hópnum.

Það má velta fyrir sér hvort ákvæðið eins og það er varðandi hesta og reiðhjól nái ekki ágætlega tilgangi sínum þar sem segir í lögunum að enginn megi stýra hesti eða hjóli ef hann er búinn að fá sér það mikið að hann geti það ekki, svona nokkurn veginn. Hlutlægu viðmiðin eru yrðu nefnilega ansi lág miðað við það sem gerist í tilviki bifreiða. Hérna eru notaðar sömu tölur og í tilviki bifreiða en það kom fram í umsögn lögreglunnar að það væri ekki farið að sekta fólk samkvæmt þeim viðmiðum fyrr en við efri mörkin á meðan hér er miðað við neðri mörkin líka. Þar að auki er töluvert auðveldara að drepa manneskju ef þú færð þér tvo bjóra og keyrir 2 tonna tæki á 50 km hraða, miðað við það að stíga upp á hlaupahjól og skottast áfram á 25 km hraða. Það er ekki hægt að líkja saman aflinu í öllum árekstrum.

Það sem kom líka fram við umfjöllun nefndarinnar á síðasta löggjafarþingi var að flækjustigið við framkvæmdina á þessu væri sennilega bara stjarnfræðilegt. Þess vegna hefði ég búist við því að ráðuneytið hefði sest niður aðeins betur með lögreglunni, sem ætti að vera framkvæmdaraðili þessa eftirlits, til þess að hlera innan úr henni hvernig hún sæi fyrir sér að gera þetta. Ef ég man dæmið rétt — segjum að löggan sé með eftirlit við Hörpu, á hjólastígnum þar, sé að grípa fólk sem er að koma úr miðbænum, kannski búið að fá sér tvo. Hún nær einum sem þarf þá að færa á lögreglustöð til að hægt sé að framkvæma kvarðað próf á því hvort viðkomandi sé undir eða yfir mörkum. Þarna eru handtökin ofboðslega mörg. Þarna er verið að fá lögregluna — yfirlestaða lögreglu oft á tíðum þar sem er mjög margt annað að gera, þetta er oft um kvöld og um helgar þar sem hún þyrfti að vera með svona eftirlit — til að ráðstafa mannskap í að ferja fólk af rafhlaupahjólum upp á stöð og halda því lögreglufólki uppteknu kannski í einn, tvo tíma við það verkefni. Lögreglan talaði um, við umfjöllun nefndarinnar (Forseti hringir.) á síðasta löggjafarþingi, að það væru til tæknilausnir til að útfæra þetta til að hægt væri að mæla og sekta fólk bara á staðnum. (Forseti hringir.) Þess vegna kemur dálítið á óvart að ráðuneytið hafi ekki skoðað þetta vegna þess (Forseti hringir.) að greinin um vínanda er í raun óframkvæmanleg eins og hún er í frumvarpinu.