154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

fæðingar- og foreldraorlof og sorgarleyfi.

910. mál
[15:44]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Frú forseti. Þetta er gagnleg umræða og skemmtileg. Í dag er kaupmáttur hámarksgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði 50% lægri en hann var árið 2005. Þessi hámarksfjárhæð hefur ekki þróast í takt við launaþróun á vinnumarkaði og þetta m.a. veldur því að barneignir hafa enn miklu meiri áhrif á atvinnuþátttöku og tekjur kvenna en karla. Ef við skoðum bara tölfræðina um fæðingarorlofstöku þá er ljóst að þær umbætur sem þó hafa orðið á fæðingarorlofskerfinu á undanförnum árum, m.a. með lengingu upp í 12 mánuði, hafa fyrst og fremst skilað konum lengri fæðingarorlofstöku. Þannig hefur nýtingin verið og ungir karlar hafa að þessu leyti ómálefnalegt forskot á ungar konur. Það bitnar á launajöfnuði kynjanna til langs tíma því eins og allir vita þá getur sú starfsreynsla sem einstaklingar ávinna sér á fyrstu árum starfsævinnar skipt sköpum um launaþróun síðar meir svo við verðum að gyrða okkur í brók og búa til sterkara fæðingarorlofskerfi. Hækkun á hámarksgreiðslum í fæðingarorlofi er þar algert grundvallarskref.

Sú breyting sem hér er lögð til er í sömu áttina og við í þingflokki Samfylkingarinnar leggjum til í frumvarpi sem ég lagði fram, bæði á þessu löggjafarþingi og því síðasta, um heildstæðar breytingar á fæðingarorlofslöggjöfinni. Þessi hækkun er mjög mikilvægt jafnréttismál og raunar finnst mér að þetta þak ætti að vera talsvert hærra í svona tekjutengdu fæðingarorlofskerfi en að við ættum að sama skapi að vera með gólf eins og hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir kom inn á. Þetta á að vera sterkt almennt kerfi sem kemur í veg fyrir að fólk verði fyrir tekjuhruni þegar það eignast barn.

Í frumvarpi okkar til breytinga á fæðingarorlofskerfinu þá leggjum við til að þakið hækki strax upp í 800.000 kr. og svo ætti það auðvitað bara að fylgja launaþróun. En við í Samfylkingunni höfum líka lagt til fjórar aðrar tillögur sem við munum halda áfram að nota hvert tækifæri hér í þingsal til að vekja athygli á og ég skora á ríkisstjórnina, ef þau ætla á annað borð að reyna að þrauka saman, í eitt og hálft ár í viðbót er það ekki, að horfa til þessara tillagna.

Í fyrsta lagi að fyrstu 350.000 krónurnar eða fyrstu 400.000 krónurnar af viðmiðunartekjum fæðingarorlofsgreiðslna verði óskertar þannig að þessi 80% regla, skerðingarregla, taki einvörðungu til tekna umfram þessa lágmarksfjárhæð. Þetta er lykilaðgerð til að verja afkomuöryggi foreldra og launalægsta fólkið á Íslandi má ekki við 20% tekjuskerðingu. Ég held að það ætti að liggja í augum uppi.

Í öðru lagi leggjum við til að barnshafandi foreldri öðlist rétt til launaðs meðgönguorlofs allt að fjórum vikum fyrir áætlaðan fæðingardag án þess að sá tími komi til frádráttar þeim tíma sem foreldri á rétt til launaðs fæðingarorlofs eftir fæðingu. Þannig er þetta í Noregi og Danmörku og að þessu hníga mjög sterk heilsufarsleg rök.

Í þriðja lagi leggjum við til að fæðingarstyrkur til námsmanna og fæðingarstyrkur til fólks utan vinnumarkaðar hækki um 50%. Þetta eru smánarlegar fjárhæðir í dag og duga hvergi nærri til framfærslu.

Í síðasta lagi leggjum við til að foreldrar barna fram að grunnskólaaldri öðlist rétt til 20% vinnutímastyttingar með stuðningi úr Fæðingarorlofssjóði í allt að sex mánuði. Þessar greiðslur myndu þá reiknast á sama hátt og greiðslur vegna fæðingarorlofs en í hlutfalli við skerðingu á starfshlutfalli. Þetta leggjum við til vegna þess að í dag er Ísland eftirbátur annarra Evrópuríkja hvað varðar jafnvægi milli vinnu og fjölskyldulífs og raunar er Tyrkland, af öllum löndum, eina Evrópuríkið kemur verr út að þessu leyti í samanburði OECD á lífsgæðum.

Á meðal þeirra sem hafa lýst stuðningi við frumvarpið okkar eru Alþýðusamband Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, Félag íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna, Ljósmæðrafélag Íslands og samtökin Fyrstu fimm. Þetta er auðvitað ákveðinn áfangasigur hér að nú eigi að hækka hámarkið, þetta er skref í rétta átt, en við munum halda áfram að beita okkur fyrir því að hinar breytingarnar sem ég hef rakið hér verði að veruleika og nota til þess hvert tækifæri hér í þingsal.

Ég verð að nota tækifærið, af því að ég á svo margar mínútur eftir, til að segja nokkur orð um leikskólakerfið og leikskólavandann á Íslandi. Við erum hér að tala um grundvallarstofnun í samfélaginu. Ég held að það sé almenn samstaða um það að leikskólar eru grundvallarstofnun fyrir barnafólk á Íslandi og þess vegna er það mjög umhugsunarvert að í raun hafa sveitarfélög byggt upp leikskólakerfið án þess að það liggi fyrir nein löggjöf um að það sé lagaskylda á þeim að gera það og án þess að sveitarfélögin búi yfir lögbundnum tekjustofnum til að standa undir þessu risastóra samfélagslega verkefni.

Ég held, virðulegur forseti, að við þurfum bara að horfast í augu við að það tekjulíkan sem ríkið hefur markað sveitarfélögum — þetta er gert á Alþingi, það er löggjafinn, það er Alþingi sem markar sveitarfélögum sitt tekjulíkan með lögum um tekjustofna sveitarfélaga — ef við horfum svo bara á löggjöfina um leikskóla og þær kröfur sem þar eru gerðar, dugar ekki til að ná samtímis öllum þeim markmiðum sem við í raun ætlum leikskólanum í nútímasamfélagi.

Og hvaða markmið er ég þá að tala um? Ég er að tala um í fyrsta lagi auðvitað að leikskólar séu öflugar og faglegar menntastofnanir og að þar sé hátt hlutfall faglærðra leikskólastarfsmanna, leikskólakennara, og á ásættanlegum launum þar sem starfsaðstæður eru eins og best verður á kosið.

Svo er ég að tala um það markmið að leikskólar séu ákveðin þjónustustofnun fyrir vinnumarkaðinn, þeir eru það auðvitað, að börn komist þá tiltölulega ung á leikskóla, helst í kringum 12 mánaða aldurinn, og foreldrar þá til vinnu.

Svo í þriðja lagi að leikskólapláss séu á viðráðanlegu verði fyrir barnafólk, að leikskólagjöldum sé haldið í lágmarki. Þetta eru kröfurnar sem eru gerðar til leikskóla og þau markmið sem lagt er upp með af hálfu sveitarfélaga en ég held að það blasi einfaldlega við að það tekjulíkan sem Alþingi hefur markað sveitarfélögum dugar ekki til að leikskólakerfið geti náð öllum þessum markmiðum í senn. Það gengur ekki til lengdar að ætla bæði að halda leikskólagjöldum tiltölulega hóflegum, hækka þau miklu minna en nemur hækkandi raunkostnaði við að veita þjónustuna eftir því sem kröfurnar aukast, en ætla svo um leið að reka einmitt sterka leikskóla sem sterkar menntastofnanir út frá þeim kröfum sem ég nefndi hér áðan án þess að sveitarfélögin búi yfir neinum lögbundnum tekjustofnum til að sinna þessu verkefni.

Þetta er vandamálið og þess vegna sjáum við mjög alvarlega þróun á Íslandi, gríðarlega alvarlega stöðu í Reykjavík og fleiri sveitarfélögum þar sem biðin eftir plássi er alveg óþolandi löng. Svo sjáum við stór sveitarfélög eins og Kópavogsbæ og Akureyrarbæ vera að gera mjög róttækar breytingar á sínum leikskólakerfum, breytingar sem hafa verið gagnrýndar fyrir að bitna sérstaklega á lágtekjufólki sem vinnur langan vinnudag. Ég held að þetta sé eitthvað sem við hér á Alþingi þurfum að eiga mjög alvarlegt samtal um. Þetta er samtal sem ríkið, sveitarfélög, foreldrar og verkalýðshreyfingin þurfa að koma að. Við þurfum að ná einhvers konar samfélagssátt um það hvað leikskóli sé og hvernig eigi að borga fyrir hann.

Aftur að fæðingarorlofslöggjöfinni og þessu tiltekna frumvarpi. Ég ræddi hér áðan við hæstv. ráðherra um gildistökuákvæði þessa frumvarps. Eins og hér hefur komið fram og verið rætt þá hefur Alþingi borist ákall frá 5.000 foreldrum og stuðningsaðilum barna um að frumvarpinu verði breytt þannig að hækkun þaksins taki til allra foreldra sem fá greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði frá og með 1. apríl 2004. Það er auðvitað hefð fyrir því, sérstaklega þegar það eru gerðar mjög umfangsmiklar breytingar á fæðingarorlofslöggjöfinni, að gildistaka miðist þá við fæðingardag barns og þannig er komist hjá ákveðnu flækjustigi. En eins og ég nefndi hérna áðan í andsvari þá er hér um mjög afmarkaðar breytingar að ræða. Þetta er bara hækkun á tiltekinni fjárhæð og þetta er breyting sem snýst um að verja foreldra ungra barna á tímum hárra vaxta og mikillar verðbólgu, sem er efnahagsástand sem foreldrar finna fyrir óháð því hvort barnið fæðist 31. mars eða 1. apríl 2004 og mér finnst sterk jafnræðisrök hníga að því að breytingin taki þá til allra þeirra sem eiga réttindi í fæðingarorlofskerfinu frá og með þessum tíma, að þakið hækki hjá öllum. Hæstv. ráðherra færði ákveðin rök gegn þessu og setti fram ákveðin sjónarmið sem virðast hafa komið fram innan ráðuneytisins. Það er ágætt að fá þau fram og eflaust verða þau rædd frekar inn í velferðarnefnd en hann hefur a.m.k. enn ekki sannfært mig svo að ég ætla að beita mér fyrir því á vettvangi velferðarnefndar, og ég fagna raunar þeirri samstöðu sem mér heyrist vera í þessum sal, að þessi hækkun verði útvíkkuð til allra og bind vonir við að meiri hlutinn í velferðarnefnd komi með í þetta verkefni og að það þurfi ekki að fara að takast mikið á hér í þingsal frekar um það.