154. löggjafarþing — 95. fundur,  15. apr. 2024.

breyting á búvörulögum.

[15:15]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég ætla að halda áfram að tala hér um efnismeðferðina úr því að hæstv. forsætisráðherra, sem ég óska til hamingju með embættið og óska velfarnaðar í starfi, kemur hingað upp og leggur orð í belg sem mér þykir gott og jákvætt. Þá langar mig eiginlega til að freista þess að fá hann hingað upp öðru sinni til að segja þinginu hvaða skoðun hann hefur á þeim þætti málsins sem er málsmeðferðin. Finnst hæstv. forsætisráðherra til eftirbreytni hvernig þetta mál var unnið? Ég held að hugtakið„ í skjóli nætur“ geri því ekki einu sinni rétt til, slík var leyndin og flýtirinn. Mér þætti gott að vita það — og nú fær hæstv. forsætisráðherra aðstoð frá þingflokksformanni Framsóknar og það er vel, fínt að fá þetta samfléttað — vegna þess að þetta er ekki gott afspurnar.