154. löggjafarþing — 95. fundur,  15. apr. 2024.

breyting á búvörulögum.

[15:18]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Mér finnst þetta mál í raun vera enn ein birtingarmynd þess hversu lítil virðing er borin fyrir þinginu og þinglegri meðferð og sérstaklega kannski bara stjórnarandstöðunni. Það er í raun og veru ótrúlegt. Þegar svona mál, svona stórt og mikilvægt mál, kemur til þingsins og það koma rauð flögg frá svo mörgum aðilum sem eiga að skipta okkur máli þá eigum við að hlusta á þessa aðila. Þetta eru verkalýðsfélögin, þetta er Samkeppniseftirlitið sem er að flagga þessum málum fyrir okkur og það koma upp verulegar áhyggjur og þingið allt í einu hugsar: Bíddu, bíddu, bíddu, getum við ekki aðeins hægt á þessu og skoðað þetta almennilega til að koma í veg fyrir að við séum að gera einhver mistök? En þá er það bara einhvern veginn hunsað. Það er hunsað. Þetta er ótrúlega oft, frú forseti, og þetta er svo mikil vanvirðing. Það hefur komið fram trekk í trekk að það eru mistök sem þessi meiri hluti, þessi ríkisstjórn keyrir hérna í gegnum þingið á handahlaupum af því að þau bera enga virðingu (Forseti hringir.) fyrir því að hægja á sér og hlusta á raddir gagnrýnenda og hlusta á raddir stjórnarandstöðunnar og hugsa með sér: (Forseti hringir.) Kannski ættum við aðeins að hægja á okkur og tryggja að við séum ekki að gera nein mistök.

Þetta er ekki faglegt, forseti, og þetta mál og niðurstaða þess er enn ein birtingarmynd þess.