154. löggjafarþing — 95. fundur,  15. apr. 2024.

breyting á búvörulögum.

[15:21]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Okkur ber, alþingismönnum, að taka það alvarlega þegar Alþingi er sakað um slæleg vinnubrögð. Það eru neytendasamtök, það eru stór samtök stéttarfélaga og félög atvinnurekenda sem færa fyrir því rök að hér hafi ekki verið höfð góð vinnubrögð. Við erum sökuð um að hafa dregið taum sérhagsmuna umfram almannahagsmuni. Það eru alvarlegar ásakanir og það eru ekki bara stjórnarandstæðingar á þingi sem vilja koma höggi á stjórnarmeirihluta sem hér eru að tala. Þess vegna finnst mér, forseti, að við þurfum að hlusta á þetta og taka þetta alvarlega, finna út úr því hvað er satt og rétt og hvort eitthvað sé til í þessari gagnrýni, því að það særir mig a.m.k. þegar Alþingi Íslendinga er sakað um spillingu.