154. löggjafarþing — 95. fundur,  15. apr. 2024.

stefna ríkisstjórnarinnar í útlendingamálum.

[15:43]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég fæ hér öðru sinni tækifæri til að ræða þetta mál í óundirbúnum fyrirspurnatíma við hv. þingmann. Við erum með frumvarp fyrir þinginu sem mun m.a. gera mönnum torveldara en átt hefur við undanfarin ár að sækjast eftir fjölskyldusameiningu. Fleiri breytingar er að finna í því frumvarpi og já, við hyggjumst klára þau mál eins og þau liggja fyrir þinginu þótt þinglega meðferðin standi auðvitað yfir og geti leitt til þess að einhverjar minni háttar breytingar verði á málinu. Ég skynja ekki annað en það sé líka góð samstaða í þinginu, jafnvel langt út fyrir stjórnarflokkana til að klára málið og það gefur mér bjartsýni um að þessar mikilvægu breytingar nái nú í gegn.

Hvað þarf fleira að gera? Það sem við þurfum fleira að gera í hælisleitendamálunum sérstaklega er að fylgjast með þróuninni í öðrum löndum sem er á hreyfingu. Það er verið að aðlaga löggjöfina á Norðurlöndunum að hinum nýja veruleika sem við búum við í dag. Þennan veruleika horfðum við ekki fram á þegar þverpólitískt samstarf leiddi til almennra breytinga á útlendingalöggjöfinni fyrir tæpum áratug síðan. Við verðum einfaldlega að gæta að því að löggjöfin hér á landi sé ekki með þeim hætti að það sé sérstakur ávinningur eða hvati til að leita hælis á Íslandi umfram t.d. önnur Norðurlönd. Þetta ættu allir að geta skilið og við höfum fengið að sjá afleiðingar af því meðan íslenska löggjöfin hefur verið opnari undanfarin misseri heldur en átt hefur við þar.

Hvað fleira ætlum við að gera? Við kynntum nýlega almenna stefnu í útlendingamálum og þar er sérstök athygli vakin á því að við sem samfélag stöndum frammi fyrir gríðarlegum áskorunum vegna þess mikla fjölda fólks sem hingað kemur til að vinna, t.d. í þjónustugeirum eins og í ferðaþjónustu, líka í byggingargeiranum og svo því til viðbótar vegna þeirra sem hér hafa fengið alþjóðlega vernd. Þetta snertir á skólamálum, þetta snertir á ýmsum félagslegum þáttum (Forseti hringir.) og við eigum öll sameiginlega hagsmuni af því að þessu fólki sé hjálpað við að aðlagast samfélaginu.