154. löggjafarþing — 95. fundur,  15. apr. 2024.

stefna ríkisstjórnarinnar í útlendingamálum.

[15:46]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég var í fyrsta lagi ánægður að heyra hæstv. ráðherra tala um aðlögun frekar en inngildingu, kannski er einhver von. En þó vil ég ítreka það við hæstv. ráðherra að það þýðir ekkert að láta eins og nú standi til að byrja að fylgjast með þróuninni. Þessi ríkisstjórn hefði átt að fylgjast með þróuninni undanfarin ár. Hún er svakaleg og meira að segja hæstv. ráðherra og fleiri hafa viðurkennt að ástand þessara mála á Íslandi hafi verið stjórnlaust. Kallar það þá ekki á stærri aðgerðir en raun ber vitni?

Hæstv. forsætisráðherra nefndi útlendingalögin frá 2016 og að margt væri breytt frá því að þau voru innleidd. En það er m.a. vegna þessara laga, þau bjuggu til á ýmsan hátt hvata sem svo hefur verið bætt við til að setja Ísland rækilega á kortið. Þarf ekki að mati hæstv. ráðherra einfaldlega ný útlendingalög sem taka mið af öllum þessum breyttu aðstæðum sem hæstv. ráðherra nefndi? Ef ríkisstjórnin treystir sér í það þá munum við í Miðflokknum og eflaust fleiri hér styðja (Forseti hringir.) ríkisstjórnina í því og ekki víst að hún þurfi að reiða sig á (Forseti hringir.) stuðning allra þingmanna Vinstri grænna.