154. löggjafarþing — 95. fundur,  15. apr. 2024.

stefna ríkisstjórnarinnar í útlendingamálum.

[15:47]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það verður á endanum mat dómsmálaráðherra hversu umfangsmiklar breytingar þarf að gera því að ég legg áherslu á það að við klárum þá áfanga sem liggja nú þegar fyrir þinginu og að strax í kjölfarið verði farið í að leggja mat á þær breytingar sem eru að eiga sér stað á Norðurlöndunum. Þegar ég ræði við samstarfsráðherra okkar á Norðurlöndunum er einn rauður þráður í þeirra máli og hann er þessi hér: Við verðum að færa löggjöfina nær lágmarksviðmiðum sáttmála Sameinuðu þjóðanna í þessum efnum. Ég tek síðan eftir því að það er sama umræðan sem á sér stað í Bretlandi og víða annars staðar á meginlandinu. Með þessari þróun verðum við að fylgjast þannig að við sitjum ekki eftir hvað varðar það að útfæra íslensku lögin í takt við tímann. En svarið við spurningunni á endanum hvílir hjá dómsmálaráðherra. Að lokum vil ég benda á að fyrri aðgerðir okkar virðast nú þegar vera farnar að skila talsverðum árangri þegar við horfum á (Forseti hringir.) fjölda umsækjenda á þessu ári borið saman við sama tímabil í fyrra.