154. löggjafarþing — 95. fundur,  15. apr. 2024.

staðan í heilbrigðismálum.

[15:55]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Varðandi lækna og ráðuneytið þá höfum við núna undanfarin misseri verið með fjölmarga lækna sem hafa komið að störfum inni í ráðuneytinu og það er læknir að störfum núna í mjög mikilvægum verkefnahópi í ráðuneytinu sem snýr einmitt að framtíð læknamönnunar og þjónustu á Íslandi til framtíðar. Og þegar við ræðum hér að hægt gangi og það sé álag á heilsugæslu þá ætla ég að nefna hérna sem dæmi stafrænu þjónustuna. Samskiptin þar hafa aukist á sex ára tímabili úr því að vera 0 í 600.000. Það er aukið aðgengi. Við höfum eflt til muna upplýsingamiðstöð, helmingurinn af þeim óskum sem koma þar í gegn er afgreiddur í gegnum upplýsingamiðstöð. Í þjónustukönnun telja tæplega 80% sig fá afgreiðslu sinna mála og erinda í samskiptum sínum við heilsugæslu og (Forseti hringir.) aðrir þurfa að fara lengra og til sérfræðilækna, þannig að það er fjölmargt mjög vel gert, myndi ég segja. (Forseti hringir.) Þetta er alltaf spurning um það líka við hvað við erum að miða þegar við fullyrðum að ekkert gangi eins og hv. þingmaður gerði hér.