154. löggjafarþing — 95. fundur,  15. apr. 2024.

tilmæli forsætisnefndar Norðurlandaráðs vegna stríðsins fyrir botni Miðjarðarhafs.

[15:57]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Forsætisnefnd Norðurlandaráðs sendi frá sér gríðarlega mikilvæga yfirlýsingu fyrir viku síðan um að Norðurlöndin í sameiningu beittu sér fyrir friðarumleitunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Þingmenn í forsætisnefndinni endurspegla allt pólitíska litrófið, frá ysta vinstri og langt til hægri, og tillagan var samþykkt einróma og án andmæla. Þar var þeim tilmælum beint til norrænu ríkisstjórnanna að þau hvetji Ísraelsmenn og Palestínumenn og veiti þeim stuðning til að vinna að friði og sáttum með friðarsamningi sem byggi á alþjóðarétti og ályktunum Sameinuðu þjóðanna.

Nú er raunveruleg hætta á stigmögnun átaka með skelfilegum afleiðingum. Á síðastliðnum sex mánuðum hafa um 100.000 manns fallið, særst eða týnst. Ásakanir og vísbendingar eru um að hungri hafa verið beitt í hernaði og börn deyja úr hungri. Við vitum að hjálparstarf hefur verið hindrað og fólki í mikilli neyð hefur ekki verið sinnt. Þá hafa hjálparstarfsmenn verið drepnir við störf sín. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er margbrotinn. Þau sem líða mest fyrir ástandið er fólk sem ekki ber neina ábyrgð á því sem gerðist 7. október í Ísrael.

Norðurlönd hafa komið fram á alþjóðavettvangi sem boðberar friðar og hvatt til alþjóðlegra samninga um frið og afvopnun, ásamt því að skapa umgjörð fyrir mikilvægar friðarviðræður í gegnum tíðina, svo sem friðarviðræður á milli Reagans og Gorbatsjovs á Íslandi árið 1986 og Óslóarsamkomulagið 1993 og 1995 milli Palestínu og Ísraels. Ég vil spyrja hæstv. hæstv. utanríkisráðherra hvort hún muni taka tilmæli forsætisnefndar Norðurlandaráðs til sín og beita sér fyrir því að Norðurlöndin stigi fastar fram og beiti áhrifum sínum og ímynd til að skapa umgjörð fyrir friðarumleitanir.