154. löggjafarþing — 95. fundur,  15. apr. 2024.

tilmæli forsætisnefndar Norðurlandaráðs vegna stríðsins fyrir botni Miðjarðarhafs.

[16:01]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ástandið er sannarlega flókið og það hafa verið hatrammar deilur áratugum saman og ástandið fer versnandi. Þeim mun mikilvægara er fyrir lönd sem segjast virða alþjóðasamþykktir og mannréttindi með ráðum og dáð að beita sér fyrir friðarumleitunum og láta friðarraddir heyrast á pólitískum vettvangi. Alþjóðasamfélagið verður reyndar allt að koma að málum og stöðva þessar hörmungar. Allir þrá að lifa við frið og öryggi. Að tala fyrir friði má aldrei vera feimnismál. Yfirskrift formennskuáætlunar Íslands í norrænu ráðherranefndinni í fyrra var Norðurlönd – afl til friðar. Eru Norðurlönd í raun afl til friðar? Telur hæstv. ráðherra að Norðurlöndin hafi enn þá (Forseti hringir.) sterku stöðu sem boðberar friðar og friðarumleitana sem þau höfðu hér á árum áður og jafnvel þótt staðan sé erfið og flókin (Forseti hringir.) geti það skipt máli að þau beiti sér?