154. löggjafarþing — 95. fundur,  15. apr. 2024.

byggingarleyfi vegna lagareldis.

[16:06]
Horfa

innviðaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina sem í raun og veru endurspeglar þá snúnu stöðu og starfsumhverfi sem lagareldið er í og enn og aftur mikilvægi þess að heildarendurskoðun á lagaumhverfinu nái fram að ganga. Ég vænti þess að nýr matvælaráðherra muni mæla fyrir nýju frumvarpi til heildarlaga um lagareldi núna á næstu dögum. Eins og hv. þingmaður bendir á þá tilkynnti Húsnæðis- og mannvirkjastofnun í febrúar síðastliðnum um breytta framkvæmd vegna byggingarleyfisskyldra sjókvía utan netlaga. Þar kom fram að frá og með 15. febrúar 2024 verði gerð krafa um byggingarleyfi vegna nýrra byggingarleyfisskyldra sjókvía sem rekstraraðilar hyggjast setja niður utan netlaga. Sú krafa er í lögum um mannvirki og var til ársins 2019 í lögum um fiskeldi. Í lögum um fiskeldi eru í dag m.a. kröfur um að kvíar skuli uppfylla norska staðla varðandi tæknilegar kröfur og þrátt fyrir þessi ákvæði hefur ekki myndast nein stjórnsýsluframkvæmd í kringum umsóknir eða útgáfu byggingarleyfa í þessum efnum.

Þetta minnir okkur enn og aftur á mikilvægi þess að ná utan um þessa flóknu stjórnsýsluframkvæmd sem þarna er í leyfisveitingaferlinu. Um þetta er fjallað sérstaklega og utan um þetta tekið í nýju frumvarpi sem ég vona að fái greiða leið og góða afgreiðslu í gegnum Alþingi. Leyfisveitingarnar sem slíkar koma ekki á mitt borð, enda eru þær í höndum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Það sem heyrir upp á ráðuneytið er fyrst og fremst að huga að stefnumörkun í þessum efnum. En mér finnst full ástæða til að kanna hvort það þurfi að velta því upp hvort nauðsynlegt sé að horfa sérstaklega til þessa þáttar við afgreiðslu nýs frumvarps hér frá Alþingi um lagareldi.