154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

dómur Mannréttindadómstóls Evrópu.

[13:33]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er ástæða til að nefna það hér undir þessum lið að í morgun tapaði íslenska ríkið máli fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu sem tveir einstaklingar höfðuðu, Guðmundur Gunnarsson og Magnús M. Norðdahl, sem voru tveir af þeim fimm sem voru inn og út, eins og það hét, haustið 2021 þegar undirbúningsnefnd kjörbréfanefndar var að störfum vegna talningaklúðursins í Norðvesturkjördæmi. Ég vil að það komi fram strax við upphaf þessa fundar að ég hyggst taka málið upp í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á morgun. Dóminn hef ég lesið og þarf að lesa, held ég, nokkrum sinnum, en þarna er bent á mjög alvarleg atriði sem löggjafanum ber að taka á. Hér skora ég á hv. þingheim að standa undir nafni, taka þessari niðurstöðu og fara í það að breyta þeim lögum sem nauðsynlegt er að breyta og breyta ákvæðum stjórnarskrár. Nú reynir á, forseti.