154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

dómur Mannréttindadómstóls Evrópu.

[13:35]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Niðurstaða Mannréttindadómstólsins er skýr: Íslensk lög tryggja ekki réttinn til frjálsra kosninga, grundvallarforsendu lýðræðisins. Í þessum dómi var ekki tekist á um það hvort annmarkar hafi verið á talningu og framkvæmd kosninganna í Borgarnesi. Um það voru allir sammála. Dómur Mannréttindadómstólsins snýr því ekki að því heldur hverjir tóku ákvörðun um að niðurstaðan hafi verið lögmæt og hvernig. Niðurstaðan er skýr: Okkar fyrirkomulag uppfyllir ekki kröfur mannréttindasáttmála Evrópu og það er fortakslaus skylda okkar þingmanna að bæta úr því með breytingum á kosningalögum og stjórnarskrá. Um þetta hljótum við öll að vera sammála og það er brýnt að klára þetta helst í vor.

En eftir stendur, herra forseti, spurningin um hverjar verða hinar pólitísku afleiðingar af þessu máli.