154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

dómur Mannréttindadómstóls Evrópu.

[13:38]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Íslenska ríkið braut gegn réttinum til frjálsra kosninga við rannsókn og samþykkt kjörbréfa eftir endurtalninguna Borgarnesi. Það liggur fyrir. Þetta er niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu, að íslenska ríkið hafi brotið gegn rétti fólks til frjálsra og lýðræðislegra kosninga. Brot gegn einni manneskju, brot gegn rétti einnar manneskju til frjálsra kosninga er brot gegn okkur öllum. Þannig er það í lýðræðisþjóðfélagi. Við getum ekki haldið áfram hér eins og ekkert hafi í skorist. Við getum ekki haldið áfram að byggja á fyrirkomulagi þar sem Alþingi sjálft úrskurðar um gildi kosninga án þess að óhlutdrægni sé tryggð, án þess að niðurstaðan sé kæranleg til dómstóls eða óháðs úrskurðaraðila. Það stenst einfaldlega ekki þær lágmarkskröfur um lýðræðislega stjórnarhætti sem við höfum skuldbundið okkur til að virða ásamt öðrum Evrópuþjóðum.

Forseti. Við þurfum að breyta þessu fyrirkomulagi. Nú skulum við sýna úr hverju við erum gerð.