154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

920. mál
[14:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í júní 2021 var fyrsta útboðið á grundvelli þessa. Þá tóku um 24.000 manns, almenningur, á Íslandi þátt í þessu. Ég held að það hafi verið vel heppnað og býsna mikil ánægja með það. Þessi aðferð sem hér er kynnt til sögunnar og þessi leið er sambærileg. Hún gengur reyndar lengra hvað það varðar að fá skýrari vilja og val og ákvörðun Alþingis. Næsta sala fór fram á árinu 2022. Núna erum við komin inn á vor 2024 þannig að ég held að það sé rétt að við höfum tekið okkur góðan tíma til að íhuga næstu skref. Næstu skref eru held ég vel ígrunduð og tekin með varlegum hætti. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt, að ég held að þetta sé skynsamleg og rétt leið að fara og treysti því og veit það auðvitað að þingið mun taka málið vel til sín og fara vel yfir alla þætti.