154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

breyting á búvörulögum og endurskoðun á lögum um veiðigjald.

[15:13]
Horfa

matvælaráðherra (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er mikið búið að ræða, eðli máls samkvæmt, um þessa löggjöf sem nú hefur tekið gildi, þ.e. um breytingu á búvörulögum. Markmið nefndarinnar voru skýr, að það yrði hagræðing og að hagræðingin myndi renna bæði til bænda og til neytenda. Ef það verða brögð að öðru þá verður auðvitað að huga að breytingum en það verður löggjafans að taka utan um það. Ég get ekki annað sagt en að víðast hvar, eins og við þekkjum í kringum okkur, er framleiðsla á kjötvöru á höndum fárra stórra aðila og það eru samkeppnisaðilarnir sem við erum hér að fást við vegna innflutnings á kjötvöru. Við þekkjum það líka að sláturhúsin standa hér tóm hluta af árinu með tilheyrandi óhagræði fyrir reksturinn. Þess vegna var jú þetta viðbragð, til að neytendur fengju áfram góða vöru og það væri hægt að greiða frumframleiðendum meira fyrir afurðirnar. Það á auðvitað að koma til vegna þess að afurðastöðvarnar njóti góðs af þessu sem hér var samþykkt.

Ég vil líka halda því til haga að ráðuneytið gerir í sjálfu sér ekki athugasemd við þinglega meðferð frumvarpsins í því bréfi sem hér er um fjallað og það mun ekki aðhafast, heldur er það löggjafinn sem hefur tekið sína ákvörðun og þau lög öðlast gildi eins og við þekkjum. Hafandi setið í nefndinni þegar málið var afgreitt þá afgreiddum við það með það að markmiði að auka tækifæri til hagræðingar, til hagsbóta fyrir bændur og neytendur. Ég vil minna á að það stendur til að endurskoða þetta, að vita einmitt hvort þessi markmiðsákvæði frumvarpsins nái fram að ganga, bæði hvað varðar ávinning neytenda og hvað varðar ávinning bænda. — Ég kem að hinum spurningunum í næsta svari.