154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

breyting á búvörulögum og endurskoðun á lögum um veiðigjald.

[15:16]
Horfa

matvælaráðherra (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil aftur halda því til haga og segja frá því hér að ég hef átt samtöl við bændur sem eru afskaplega ánægðir með þetta frumvarp eins og það var samþykkt hér á Alþingi. Eins og ég hef sagt þá hyggst hvorki ráðherra né ráðuneytið bregðast við að svo stöddu. Ég veit að mitt fólk kemur til viðræðu við atvinnuveganefnd í fyrramálið og þá er hægt að spyrja frekar út í þessi mál. Ég hyggst ekki bregðast við að svo stöddu en eins og ég sagði, ef það kemur til þess að lögin nái ekki fram markmiði sínu þarf þingið auðvitað að skoða það.

Varðandi stóra sjávarútvegsfrumvarpið og Auðlindina okkar þá hyggst ég halda því til streitu. 95 umsagnir bárust í samráðsgáttina. Ráðuneytið hefur verið að vinna úr þeim núna og ég fékk þær á borðið mitt á föstudaginn. Ég hyggst skoða það núna hvort ég er samþykk þeim athugasemdum sem þar hafa komið fram og síðan verður málið lagt fram, vonandi hið fyrsta en það er ekki víst að það náist fyrr en næsta haust.