154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

mat á áhrifum nýrra búvörulaga og umsóknir um leyfi til hvalveiða.

[15:22]
Horfa

matvælaráðherra (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Svo því sé haldið til haga þá liggja inni í ráðuneytinu tvær umsóknir, önnur um hvalveiðar og hin er ósk um leyfi um veiði á hrefnum. Því er nú þannig háttað að meðan mál eru til umfjöllunar í nefndum þá er ráðherra ekki þess bær að tjá sig um stöðu málanna. Ég get ekki nákvæmlega sagt til um það hvenær vænta má niðurstöðu en við erum að reyna að hraða þessari afgreiðslu. Það er verið að bíða eftir ákveðnum gögnum enn þá sem þurfa að liggja fyrir til að við getum tekið ákvörðun. Mér fyndist kannski eðlilegt að þeir sem sækja um leyfi fái að vita það fyrst áður en það verður sagt hér í pontu Alþingis, hvernig svo sem því verður háttað.